Börnin horfin af spítalanum

AFP

Börnin þrjú sem voru flutt á spítala í Austurríki eftir að þau fundust í hópi 26 flóttamanna á leið til Þýskalands eru horfin af spítalanum ásamt fjölskyldum þeirra.

Í frétt á vef BBC segir að börnin hafi horfið sporlaust, en þau voru flutt á spítala til aðhlynningar þegar í ljós kom að þau þjáðust af alvarlegum vökvaskorti. Hefðu þau ekki komist undir læknishendur er ekki víst að þau hefðu lifað af ferðina á áfangastað

Frétt mbl.is: Stöðvuðu annan bíl með flóttafólki

Lögreglan í Austurríki stöðvaði bílinn sem þau voru í nærri Brauna, sem er nálægt landamærum Austurríkis og Þýskalands. Ökumaðurinn, sem er Rúmeni, var handtekinn.

Börnin, tvær stúlkur og strákur á aldrinum eins til fimm ára, voru að sögn í kös með flóttafólki í bílnum. Talið er að fólkið sé frá Sýrlandi, Afganistan og Bangladess.

Uppfært kl. 16.27:

Guardian hefur eftir talsmanni lögregluyfirvalda að foreldrar barnanna hafi tekið þau af sjúkrahúsinu í laumi, en börnin hafi fengið aðhlynningu og að ástand þeirra hafi verið stöðugt.

„Þau ákváðu að halda í átt að Þýskalandi. Þau vildu ekki vera um kyrrt í Austurríki,“ sagði hann. „Ef þau hefðu verið um kyrrt hefðum við tekið þau í viðtal og spurt hvaðan þau komu, hvert þau vildu fara og um smyglarana.. með þeim mögulegu afleiðingum að við hefðum þurft að senda þau tilbaka til Ungverjalands.“

Framkvæmdastjóri sjúkrahússins sem börnin dvöldu á sagði að þau hefðu átt að dvelja þar nokkra daga til viðbótar en að þau hefðu verið á batavegi og það væri ekki vandamál að þau hefðu yfirgefið sjúkrahúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert