Bel-hofið stendur enn

Hluti fornu borgarinnar Palmyra.
Hluti fornu borgarinnar Palmyra. AFP

Hið forna hof, Bel í Pelmyra í Sýrlandi, stendur enn þrátt fyrir að liðsmenn Ríkis íslams hafi gert tilraun til að sprengja það í loft upp. 

Yfirmaður fornleifaverndar í Sýrlandi segir að sprengingin hafi verið öflug en að hið 2000 ára gamla hof standi þó enn að mestu. Enn er ekki búið að meta þær skemmdir sem urðu því ekki er talið óhætt að fara inn í hofið, segir í frétt BBC.

Fyrr í mánuðinum var Khaled al Asaad, for­stöðumaður forn­minj­anna, af­höfðaður af Ríki íslams og lík hans hengt upp á víðförl­um stað í Pal­myra, en sam­tök­in hafa ráðið borg­inni síðan í lok maí.

Pal­myra er vin í miðju einsk­is­mannslandi og hef­ur verið kölluð „Perla eyðimerk­ur­inn­ar“. Nafn henn­ar merk­ir Pálma­borg og hún er kennd við döðlupálma sem eru enn al­geng­ir á þess­um slóðum. 

Pal­myra er getið á töfl­um frá 19. öld fyr­ir Krist. Borg­in varð snemma mik­il­væg­ur án­ing­arstaður úlf­alda- og vagn­lesta á leiðinni milli Miðjarðar­hafs og Persa­flóa og einnig á Silki­leiðinni til Kína og Ind­lands. Blóma­skeið borg­ar­inn­ar hófst á fyrstu öld eft­ir Krist, þegar hún var hluti af Róma­veldi, og stóð í fjór­ar ald­ir. Henni tók síðan að hnigna og hún eyðilagðist að lok­um í jarðskjálfta árið 1089.

Pal­myra var einn af vin­sæl­ustu ferðamanna­stöðum Sýr­lands áður en stríðið í land­inu hófst árið 2011. Á ári hverju komu þangað um 150.000 er­lend­ir ferðamenn til að skoða forn­minjarn­ar, m.a. fal­leg­ar stytt­ur, meira en þúsund súl­ur og greftr­un­ar­svæði með um 700 graf­hýsi.

Þessi ódagsetta mynd, sem virðist vera stilla úr myndbandsupptöku, var …
Þessi ódagsetta mynd, sem virðist vera stilla úr myndbandsupptöku, var birt af Ríki íslam í Homs í dag. Hún virðist sýna reykjarmökk stíga til himins frá Baal Shamin-hofinu í Palmyra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert