Drekkti sonum sínum í baðkarinu

SPENCER PLATT

Rúmlega tvítug kona í Arizona var handtekin í gær grunuð um að hafa drekkt sonum sínum, tveggja ára gömlum tvíburum í baðkari á heimili sínu. Jafnframt reyndi hún að drekkja þriðja barninu.

Mireya Lopez, 22 ára, var handtekin á heimili sínu í úthverfi Phoenix og verður hún ákærð fyrir tvöfalt morð og morðtilraun. Að sögn talsmanns lögreglunnar, játaði konan að hafa drekkt sonum sínum og að hafa reynt að drekkja þriðja barninu. Ekki er vitað hvers vegna hún myrti börn sín, segir í frétt Reuters.

Það var amma drengjanna sem hringdi í neyðarlínuna um hádegið í gær og sagði hún að börnin önduðu ekki. Þegar lögregla kom á heimili fjölskyldunnar fann hún drengina meðvitundarlausa í rúmum sínum. Lífgunartilraunir báru ekki árangur og voru þeir úrskurðaðir látnir við komuna á sjúkrahús.

Lopez greindi lögreglu frá því að hún hafi reynt að drekkja þriðja barninu en fjölskyldumeðlimur hefði komið í veg fyrir að henni tækist það. Það barn slapp óskaddað en ekki kemur fram í frétt Reuters hvernig það barn tengist henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert