„Ég hef upplifað það versta“

Flóttafólk sem er að fara yfir landamæri Grikklands til Makedóníu …
Flóttafólk sem er að fara yfir landamæri Grikklands til Makedóníu fótgangandi. AFP

Ráðamenn ríkja ESB segja að grípa verði til aðgerða vegna fólks sem er á flótta í álfunni. Smyglarar notfæra sér eymd flóttafólksins sem hefur upplifað slíkar hörmungar að því verður ekki með orðum lýst. „Ég hef upplifað það versta,“ segir sýrlensk kona sem er haldi yfirvalda í Ungverjalandi.

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, mun í dag eiga fund með fulltrúum Evrópusambandsins í hafnarborginni Calais. Málefni fundarins eru aðgerðir vegna gríðarlegs fjölda fólks sem hefur flúið til Evrópu.

ESB hefur ákveðið að veita Frökkum fjárhagsstuðning svo hægt sé að reisa viðunandi aðstöðu fyrir flóttamenn í Calais en þúsundir hafast þar við í þeirri von að komast yfir til Bretlands. Eru búðir þeirra nefndar „The Jungle“ eða „Frumskógurinn“.

En Calais er aðeins brot í miklu stærra samhengi því Evrópa hefur ekki staðið frammi fyrir slíkum fólksflutningum síðan á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Talið er að fleiri hundruð þúsund manns reyni að komast til Evrópu í ár, flestir þeirra eru að flýja átök í Miðausturlöndum.

„Evrópu hefur verið virkjuð,“ sagði Valls þegar hann kom til Calais í morgun og vísaði til ummæla forsætisráðherra Ítalíu í gær, Matteo Renzi, sem sagði að það væri kominn tími til að Evrópu væri ýtt til og frá og hún gripi sjálf til aðgerða.

Segir viðbrögð Ungverja og fleiri ríkja hneyksli

En ekki eru stjórnvöld allra ríkja Evrópu sammála um hvað eigi að gera. Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, sagði í gær að það væri hneyksli að einhver ríki í austurhluta álfunnar neituðu að taka við fleira fólki og að girðingin sem Ungverjar væru að reisa á landamærum sínum til að koma í veg fyrir komu fólks til landsins væri ekki í anda gilda ESB. 

Þegar 71 lík fannst í flutningabíl í Austurríki í síðustu viku hafði mikil áhrif á umræðuna um fólk sem er á flótta undan átökum heima fyrir en fólkið var frá Sýrlandi. Margir leggja sig í gríðarlega hættu á flóttanum en yfir 2500 hafa drukknað á leiðinni yfir Miðjarðarhaf það sem af er ári. Á sama tíma hafa smyglarar hagnast mjög á eymd flóttafólksins.

Öskrað á okkur eins og dýr

Flestir flóttamennirnir koma að landi á Ítalíu eða Grikklandi en þaðan reyna þeir að komast til auðugari ríkja í norðurhluta Evrópu þrátt fyrir margar hindranir á þeirri leið.

Samar, sem er fertug að aldri og frá Damaskus, segir í samtali við AFP fréttastofuna að flóttafólkið hafi hreinlega ekki efni á þessu því það þurfi að greiða fyrir hvert skref sem stigið er. 

Hún líkir þessu við því að vera í völundarhúsi en fréttamaður AFP hitti hana að máli þar sem hún hafði beðið klukkustundum saman með tveimur sonum sínum í skítugri og sjóðheitri móttöku í flóttamannabúðum í Presevo í Serbíu.

„Við erum í völundarhúsi, förum á milli raða og hér í Serbíu öskrar lögreglan á okkur eins og við séum dýr,“ segir hún með tárin í augunum. 

Stjórnvöld í Makedóníu hafa lýst yfir neyðarástandi vegna flóttafólksins sem þangað kemur og Ungverjar eru að reisa fjögurra metra háa gaddavírsgirðingu á landamærum Serbíu. Eins hafa hermenn verið sendir á landamærin og lögregla með hunda gætir nú landamæranna. Þeir sem reyna að komast yfir landamærin án tilskilinna leyfa eiga yfir höfði sér harða refsingu. Yfir 3 þúsund fóru yfir landamærin á laugardag og virðist því girðingin gera lítið til þess að stöðva örvæntingarfullt fólk á flótta.

„Það er kraftaverk að við lifðum af“

Ríkisstjórn Ungverjalands segir gagnrýni franska utanríkisráðherrans vekja furðu og að lögð verði fram formleg kvörtun við sendiráð Frakka í Ungverjalandi. 

Palestínsk/sýrlensk kona, sem AFP fréttastofan ræddi við sig lætur sér fátt um finnast um aðgerðir Ungverja eða eins og hún segir: „Mér er nákvæmlega sama hver handtekur mig núna. Ég hef þegar séð það versta,“ en hún er á flótta ásamt fjögurra ára gamalli dóttur sinni og fleiri ættingjum.

„Við vorum í haldi YPG, (öflugs vígahóps Kúrda í Sýrlandi sem tengist PKK), Ríkis íslams og Al-Nusra Front á leið okkar vestur í átt til Tyrklands. Það er kraftaverk að við lifðum af,“ segir hún.

Innanríkisráðherra Bretlands, Theresa May, minntist ekki einu orði á aðstæður flóttafólksins í grein sem hún ritaði í Sunday Times í gær heldur einblíndi hún á það hvernig verði hægt að fækka komu innflytjenda frá öðrum ESB ríkjum til Bretlands.

Fimm, fjórir Búlgarar og Afgani, eru í haldi lögreglu í Ungverjalandi vegna dauða flóttamannanna í flutningabílnum sem fannst í Austurríki. Fjórir þeirra hafa þegar lýst yfir sakleysi. Talið er að fólkið hafi verið látið í á annan sólarhring áður en starfsmenn í vegavinnu fóru að kanna með bílinn við hraðbrautina. Bíllinn hafði staðið þar í tæpan sólarhring en að sögn sjónarvotts hafði hann séð bílstjórann hlaupa á brott eftir að hafa opnað afturhurðina á bílnum. Annar bíll hafi komið og sótt hann og þeir ekið á ofsahraða á brott.

 Þremur sýrlenskum börnum var bjargað úr öðrum flutningabíl sem fannst yfirfullur af flóttafólki í Austurríki. Foreldrar barnanna sóttu þau á sjúkrahúsið á föstudag og eru þau horfin, sennilega komin til Þýskalands, að sögn lögreglunnar. Það var rúmenskur maður sem ók þeim flutningabíl en hann var á spænskum númerum og var að koma frá Ungverjalandi, segir talsmaður lögreglunnar, David Furtner. 

Frá móttöku flóttamanna í Presevo í Serbíu
Frá móttöku flóttamanna í Presevo í Serbíu AFP
Sýrlenskir flóttamenn í Presevo
Sýrlenskir flóttamenn í Presevo AFP
AFP
Aðstaðan sem flóttamönnum býðst í Presevo
Aðstaðan sem flóttamönnum býðst í Presevo AFP
Írönsk flóttafjölskylda í lestinni á leið til Austurríkis frá Ungverjalandi.
Írönsk flóttafjölskylda í lestinni á leið til Austurríkis frá Ungverjalandi. AFP
AFP
Gaddavírsgirðing á landamærum Ungverjalands
Gaddavírsgirðing á landamærum Ungverjalands
Flóttadrengur á leið til Austurríkis
Flóttadrengur á leið til Austurríkis AFP
Beðið eftir því að komast frá Gevgelija í Makedóníu til …
Beðið eftir því að komast frá Gevgelija í Makedóníu til Serbíu. AFP
Svefnaðstaða flóttafólksins
Svefnaðstaða flóttafólksins AFP
Flóttamaður sem drukknaði á leið yfir Miðjarðarhafið
Flóttamaður sem drukknaði á leið yfir Miðjarðarhafið AFP
AFP
AFP
AFP
Sýrlenskir flóttamenn
Sýrlenskir flóttamenn AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert