Tveimur systrum verði nauðgað

Bróðir systranna hljópst á brott með giftri konu.
Bróðir systranna hljópst á brott með giftri konu. Skjáskot af vef Amnesty International.

Tæplega 170 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun á vegum Amnesty International þess efnis að tveimur indverskum systrum verði ekki nauðgað af hópi manna. Systurnar búa í Baghpat í Uttar Pradesh-héraðinu í Indlandi og hefur þorpsþingið, sem samanstendur af eldri karlmönnum þorpsins, ákveðið að refsa þeim fyrir „glæpi“ bróður þeirra.

Amnesty International hefur skorað á indversk yfirvöld til að tryggja öryggi systranna. Bróðir þeirra hljópst á brott með giftri konu og töldu öldungarnir hæfilega refsingu að þeim yrði nauðgað af hópi manna og því næst látnar ganga naktar um þorpið með bundið fyrir augun, að þær yrðu niðurlægðar og brotið yrði á þeim.

Í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International segir að netákallsfélagar krefji nú yfirvöld í Uttar Pradesh að grípa tafarlaust til aðgerða og tryggja vernd systranna og fjölskyldu og að sjá til þess að þau geti snúið óhult heim. Einnig er þess krafist að yfirvöld ýti úr vör óháðri rannsókn á skipunum þorpsþingsins um að systrunum verði nauðgað og draga hina seku til ábyrgðar.

Systurnar og fjölskylda þeirra eru af stétt Dalíta á Indlandi. Þau hafa flúið þorpið og leitað hælis í Nýju-Delí. Bróðir systranna og konan hafa verið ástfangin í þrjú ár en foreldrar ungu konunnar létu hana ganga í hjónaband með öðrum manni í febrúar gegn hennar vilja. 

Hér er hægt að skrifa undir áskorunina.

Hér má sjá tilkynningu frá Amnesty á Íslandi vegna málsins: 

Sjálfskipað þorpsþing karlmanna í þorpi í Baghpat-héraði á Norður-Indlandi, skipaði fyrir um að Meenakshi Kumari, 23 ára, og 15 ára systur hennar, yrði nauðgað en þær tilheyra Dalit-stéttinni á Indlandi, þeim hópi samfélagsins sem er lægst settur. Dómstóllinn sem kallast khap panchayat opinberaði dóminn þann 30. júlí 2015 sem refsingu fyrir afglöp bróður þeirra sem stakk af með giftri konu sem tilheyrir Jat- stéttinni á Indlandi sem er ráðandi stétt. Þorpsþingið skipaði jafnframt fyrir um að systurnar yrðu látnar marsera naktar um þorpið með bundið fyrir augun. Stúlkurnar og fjölskylda þeirra hafa flúið þorpið og dvelja í Delí.

Fjölskyldan óttast enn um öryggi sitt og einnig er óttast um öryggi Jat-konunnar sem stakk af með bróðurnum en hún gengur með barn þeirra undir belti.

Ekkert getur réttlætt þessa andstyggilegu refsingu. Netákallsfélagar í Íslandsdeild Amnesty International krefja nú yfirvöld í Uttar Pradesh að grípa tafarlaust til aðgerða og tryggja vernd Meenakshi, systur hennar og fjölskyldu og að sjá til þess að þau geti snúið óhult heim. Einnig er þess krafist að yfirvöld ýti úr vör óháðri rannsókn á skipunum þorpsþingsins um að systrunum verði nauðgað og draga hina seku til ábyrgðar. Hægt er að taka þátt í netákallinu hér: http://www.netakall.is/adgerdir/systur-daemdar-til-naudgunar/.

Sjálfsskipuð þorpsþing eru útbreidd á Indlandi. Oftar en ekki samanstanda þorpsþingin af eldri karlmönnum sem tilheyra ráðandi stéttum Indlands en þeir fyrirskipa hvaða samfélagsreglum ber að hlíta í þorpinu sem þeir tilheyra. Hæstiréttur Indlands hefur lýst þessum sjálfskipuðu þorpsþingum sem "kengúru dómstólum" og dæmt úrskurði þeirra ólöglega. Engu að síður halda þorpsþingin áfram að starfa og refsingar á þeirra vegum er fylgt eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert