Óhlýðnast hæstarétti vegna samkynja hjónabanda

Sýsluritarinn í Rowan-sýslu er svo andsnúinn samkynja hjónaböndum að hann …
Sýsluritarinn í Rowan-sýslu er svo andsnúinn samkynja hjónaböndum að hann brá á það ráð að hætta alveg að gefa út hjúskaparvottorð. AFP

Sýsluritari í Kentucky í Bandaríkjunum á að líkindum yfir höfði sér sektir eða fangelsisdóm en hann hefur neitað að gefa út hjúskaparvottorð eftir að hæstiréttur landsins lögleiddi hjónabönd samkynhneigðra fyrr á þessu ári. Eftir að hafa verið hafnað á öllum dómstigum um undanþágu bar embættismaðurinn „vald guðs“ fyrir sig í dag. 

Kim Davis er kjörinn ritari skrifstofu Rowan-sýslu í Kentucky og bókstafstrúar kristin. Eftir að hæstiréttur kvað upp úr um að samkynja pör hefðu sama rétt og aðrir til að ganga í hjónaband ákvað hún að hætta að gefa út hjúskaparvottorð hvort sem er til gagn- eða samkynhneigðra para. Þannig taldi hún sig geta komist hjá því að vera sökuð um að mismuna fólki.

Í kjölfarið skipaði Steve Beshear, ríkisstjóri Kentucky, sýsluriturum að sinna annað hvort skyldum sínum og gefa út hjúskaparvottorð, þar á meðal til para af sama kyni, eða segja af sér að öðrum kosti. Davis leitaði til ríkisdómstóls til að freista þess að fá undanþágu frá því að þurfa að gefa fólk saman en því var hafnað. Þegar hæstiréttur hafnaði kröfunni sömuleiðis tók réttartilskipun sem ríkisdómstóll gaf út gildi en hún kveður á um að hún skuli gefa út hjúskaparvottorð.

Þrátt fyrir þetta hélt Davis áfram að neita fólki um vottorð í dag. Þegar hún var spurð að því í krafti hvers hún starfaði sagði Davis: „í krafti guðs“.

Sýslumaðurinn í Rowan-sýslu segir líklegt að Davis verði fundin sek um að óhlýðnast dómstólnum og verði sektuð eða jafnvel fangelsuð fyrir vikið. Í frétt Vox um málið kemur fram að víða um land standi yfir orrustur fyrir dómstólum af svipuðum toga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert