Skotinn til bana með upprétta hönd

Lögreglumenn í Texas. Mynd úr safni.
Lögreglumenn í Texas. Mynd úr safni. AFP

Lögregluyfirvöld í Texas í Bandaríkjunum rannsaka nú tvö myndbönd sem tekin voru af vegfarendum þegar að lögreglumenn í Bexar sýslu skutu mann til bana í síðustu viku. CNN segir frá þessu.

Eitt myndband hefur verið birt opinberlega af sjónvarpsstöð í San Antonio sem fékk það frá manninum sem tók það upp á föstudaginn. Myndbandið er tekið úr fjarska en þar lítur út fyrir að sá látni, Gilbert Flores, hafi að minnsta kosti haft aðra höndina uppi þegar hann var skotinn. Hin höndin sést ekki í myndbandinu.

Annað myndband sem tekið var af vegfaranda er í vörslu lögreglu og hefur ekki verið birt opinberlega. Að sögn saksóknarans Nicholas LaHood sýnir seinna myndbandið betra sjónarhorn til þess að meta hvað gerðist.

Lögreglan í Bandaríkjunum hefur verið harðlega gagnrýnd síðasta árið fyrir hvernig og hvenær hún notar vopn. Fjölmargir einstaklingar hafa látið lífið eftir átök við lögreglu og hafa málin skapað spennu á milli lögreglu og almennra borgara, sérstaklega minnihlutahópa.

Michael Thomas, sem tók upp myndbandnið sem búið er að birta opinberlega, sagði að hann hafi ákveðið að taka upp samskipti lögreglumannanna og hins látna vegna umræðunnar um lögregluofbeldi. Í myndbandinu má sjá Flores, beran að ofan, hlaupa fyrir utan heimili í San Antonio. Tveir lögreglumenn nálgast manninn en þeir voru kallaðir út til þess að athuga með tilkynningu um heimilisofbeldi.

„Þegar að lögregla og maðurinn nálguðust hvorn annan var eins og maðurinn ætlaði að hlaupa aftur inn í húsið sitt. En síðan hljóp hann að bíl við lögreglubílinn og lögreglumennirnir nálguðust hann enn frekar,“ sagði Thomas í samtali við CNN.

Að sögn lögregludeildar Bexar sýslu var Flores með hníf og neitaði hann að leyfa lögreglumönnunum að handataka sig. „Hann setur hendurnar upp í loft í nokkrar sekúndur en síðan er hann skotinn,“ sagði Thomas en hann tók upp myndbandið úr bíl sínum. 

Lögreglustjórinn Susan Pamerleau sagði í dag að myndband Thomas væri eitt af mörgum sönnunargögnum sem nú yrði safnað til þess að rannsaka málið. Hvorugur lögreglumannanna var með myndavél á sér þegar Flores var skotinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert