Þurftu að afþakka gjafir til flóttamanna

Flóttamenn í Ungverjalandi bíða þess að komast til Þýskalands.
Flóttamenn í Ungverjalandi bíða þess að komast til Þýskalands. AFP

Lögregla í þýsku borginni Munchen þurfti í dag að afþakka gjafir almennings til flóttamanna eftir að íbúar borgarinnar fylltu heila lestarstöð af matargjöfum, fötum og leikföngum. The Independent greinir frá þessu.

Lögreglan í Munchen greindi frá því í morgun á Twitter að um 590 flóttamenn væru á aðallestarstöð borgarinnar og að hver sem vill hjálpa væri velkominn. Íbúar borgarinnar tóku lögregluna á orðinu og eftir aðeins nokkrar mínútur fór hjálpin að berast.

Rúmri klukkustund eftir að færslan birtist á Twitter greindi lögreglan frá því að flóttamennirnir hafi fengið heilan helling af mat, drykk og bleyjum. Stuttu eftir hádegi var þó nóg komið og var fólk beðið um að koma ekki með fleiri hjálpargögn.

Þúsundir hælisleitenda og flóttamanna hafa komið í gegnum Munich síðustu daga, aðallega Sýrlendingar og Írakar. Flestir þeirra komu með lestum frá Ungverjalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert