Bændurnir koma - til Parísar

Bændur streyma nú til Parísar
Bændur streyma nú til Parísar AFP

Bændur, á rúmlega eitt þúsund dráttarvélum, ætla að reyna að loka hringveginum inn í París á morgun í mótmælaskyni við verðlækkanir sem þeir segja að sé að ganga að rekstri þeirra dauðum.

Undanfarna mánuði hafa bændur ítrekað mótmælt verðlækkunum á matvöru og eru það einkum bændur í mjólkur- og kjötiðnaði sem hafa tekið þátt. Þeir segja að erlend samkeppni, stórmarkaðir og dreifingarfyrirtæki beri þar ábyrgð.

„Við erum komnir að þolmörkum,“ segir Sebastien Louzaouen, sem er félagið í samtökum ungra bænda. „Ef við getum sýnt fram á mátt okkar með því að loka París þá hvetur það kannski ríkisstjórnina til þess að grípa til aðgerða. Ég bið Parísarbúa afsökunar en bændurnir eru að koma.“

Í sumar hafa bændur verið í skæruhernaði víða í Frakklandi, meðal annars hafa þeir lokað þjóðvegum, hent mykju á stræti borga og komið í veg fyrir að ferðamenn geti sótt  vinsælan áfangastað, Mont St-Michel, heim.

Undanfarna daga hafa bændur tekið sig saman og lagt af stað, sumir í langferð, á dráttarvélum sínum, en þeir stefna til Parísar. Ferðin sækist hægt enda er meðal hraði þeirra 35 kílómetrar á klukkustund.  Lögregla er við öllu búin og hefur beðið ökumenn um að fresta ferðalögum sínum til höfuðborgarinnar á morgun og nýta sér frekar almenningssamgöngur. 

Viðræður milli bændasamtaka og stjórnvalda hafa skilað einhverjum árangri en í júlí samþykkti ríkisstjórnin neyðarpakka fyrir bændur upp á 600 milljónir evra í skattafrádrátt og lánatryggingar. En bændur segja þetta hvergi nærri nóg og hafa fréttir af sjálfsvígum þeirra ratað í fjölmiðla landsins. 

Landbúnaðarráðherra hefur áætlað að um 10% franskra bænda rambi á barmi gjaldþrots og skuldi samanlagt um einn milljarð evra.

Sendinefnd 100 bænda mun skunda á franska þingið á morgun þar sem þeir munu afhenda þingheimi kröfur sínar.

AFP
Staða bænda í Frakklandi er grafalvarleg og blasir við gjaldþrot …
Staða bænda í Frakklandi er grafalvarleg og blasir við gjaldþrot fjölmargra AFP
Landbúnaðarráðherra Frakklands Stephane Le Foll sést hér ræða við bændur …
Landbúnaðarráðherra Frakklands Stephane Le Foll sést hér ræða við bændur á Montparnasse lestarstöðinni AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert