Kastaði upp við frásögn sonarins

Hannah Witheridge og David Miller voru myrt í Taílandi í …
Hannah Witheridge og David Miller voru myrt í Taílandi í september á síðasta ári. AFP

Annar mannanna sem grunaðir eru um að hafa myrt Hönnuh Witheridge og David Miller í Tælandi á síðasta ári segist hafa verið vakinn snemma morguns þann 8. október á síðasta ári af tíu karlmönnum þar sem hann lá sofandi í herbergi sem hann deildi með öðrum farandverkamönnum.

Hann og aðrir í herberginu voru settir í handjárn, eigur þeirra teknar og þeir færðir utandyra þar sem fleiri menn biðu þeirra með kylfur. Var hann aðskilinn frá hinum mönnunum og færður á stað sem var ekki lögreglustöð.

„Þeir settu plastpoka yfir höfuð mitt þangað til að ég leið út af og héldu áfram að spyrja: Myrtir þú,“ segir maðurinn í samtali við fjölmiðla. Hann var einnig spurður hvar hann var þegar morðin áttu sér stað. Þegar hann neitaði að hafa framið morðin settu mennirnir annan plastpoka yfir höfuð hans.

Þetta kom fram við meðferð málsins í dag. Móðir mannsins yfirgaf salinn þegar hún hafði hlustað á frásögn sonar síns og kastaði upp. Mennirnir játuðu fyrst um sinn morðin en drógu játningarnar til baka og sögðust hafa verið pyntaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert