Mennirnir hafi ekki ákveðið nauðgun

Konan segist varla hafa þekkt manninn. Blaðamaður BBC segir erfitt …
Konan segist varla hafa þekkt manninn. Blaðamaður BBC segir erfitt að meta hvort svör hennar hafi verið hennar eigin skoðun eða æfðar fyrirskipanir annarra. AFP

Lögregla á Indlandi segir að engar sannanir séu fyrir því að sjálfskipað þorpsþing karlmanna í þorpi í Baghpat-héraði hafi komið saman og skipað fyrir um að systrum af Dalíta-stéttinni yrði nauðgað.

Blaðamaður BBC heimsótti þorpið Sankraud á Indlandi, heimili systranna og fjölskyldu þeirra og ræddi við aðra systurina og konuna sem bróðir hennar á að hafa átt í ástarsambandi við.

Talsmaður Amnesty segir samtökin byggja upplýsingar sínar á beiðni systranna til Hæstaréttar landsins en þær vilja að fjölskyldan hljóti vernd lögreglu og málið verði rannsakað.

Líkt og kom fram á mbl.is fyrr í vikunni bárust fregnir af því að mörg þúsund manns hefðu skrifað undir áskorun þess efnis að tveimur systrum, 15 og 23 ára yrði ekki nauðgað en þorpsþing skipað eldri karlmönnum hafði ákveðið að þeim yrði refsað fyrir „glæpi“ bróður þeirra sem hljópst á brott með giftri konu af hærri stétt. 

Um klukkustund tekur að aka frá höfuðborginni Delí til þorpsins. Þær fáu konur sem eru á ferli hylja flestar andlit sín, karlmennirnir eru aftur á móti meira áberandi. Íbúar þorpsins eru ekki ánægðir með athyglina sem hefur beinst að því síðustu daga og segja fréttirnar ekki sannar. „Við skömmumst okkur svo mikið fyrir að þorpið okkar sé í fréttum fyrir eitthvað sem gerðist ekki,“ kallar ungur maður.

Allir vissu að þau væru ástfangin

Önnur systranna óskaði eftir aðstoð lögfræðings á skrifstofu í Delí. Hún vill að lögregla verndi hana og fjölskyldu hennar og segir að þeim hafi verið hótað og misþyrmt eftir að málið komst upp. Ættingjar þeirri og þorpsbúar af efri stéttum vilja að fjölskyldan yfirgefi þorpið og komi ekki aftur.

Frétt mbl.is: Tveimur systrum verði nauðgað

„Allir í þorpinu vissu að bróðir minn og konan væru ástfangin,“ segir hún í samtali við blaðamann BBC. Fjölskylda konunnar, sem var gift og tilheyrir Jat-stéttinni á Indlandi, ráðandi stétt, var þó ekki samþykk sambandi þeirra. Konan er nú komin aftur til fjölskyldu sinnar og óttast systirin einnig um öryggi hennar.

Segist varla hafa þekkt manninn

Blaðamaðurinn heimsótti konuna og fjölskyldu hennar. Í húsinu sitja ættingjar og öldungar þorpsins. Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan húsið. „Þetta eru allt lygar,“ segir frændi konunnar við blaðamanninn. „Hún vildi ekki fara. Það var ekkert framhjáhald.“

Blaðamaðurinn fær loks að ræða við konuna uppi á þaki hússins en tveir karlkyns ættingjar hennar fylgjast þó grannt með. „Ég þekkti manninn varla,“ segir konan. „Ég vissi ekki einu sinni hvað hann hét. Hann gabbaði mig til að koma með sér, sagði að hann væri með starf fyrir mig. Svo hélt hann mér gegn mínum vilja.“

„Það er erfitt að meta hvort hún er að segja það sem hún vill,“ skrifar blaðamaður BBC og bætir við að svör hennar hljómi dálítið æfð.

Hér má sjá umfjöllun BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert