Óttast að Þjóðverjar loki á þá

Frá Keleti lestarstöðinni í Búdapest
Frá Keleti lestarstöðinni í Búdapest AFP

Mikil spenna er í samskiptum ungversku lögreglunnar og flóttamanna frá Mið-Austurlöndum en tugir þúsunda flóttamanna hafa komið til landsins það sem af er ári. Flóttamennirnir eru margir á leið til Þýskalands en þeir óttast að Þjóðverjar fái fljótlega nóg og loki landamærum sínum.

Um 100-150 flóttamenn mótmæltu við Keleti-lestarstöðina í Búdapest í morgun er lögregla hindraði um tvö þúsund flóttamenn sem reyndu að komast um borð í lestir á leið til Austurríkis og Þýskalands.

Um 600 flóttamenn, einkum frá Sýrlandi, Írak og Afganistan, bíða fyrir utan lestarstöðina og um 1.200 eru á svonefndu biðsvæði.

Á sama tíma neita um 100 flóttamenn sem eru á brautarstöð við landamæri Serbíu að fara um borð í lest sem á að flytja þá í Debrecen-flóttamannabúðirnar eftir að þeir voru skráðir inn í Ungverjaland. Í tilkynningu frá ungversku lögreglunni segir að fólkið krefist þess að fá að fara til Þýskalands og að lögregla hafi gripið til nauðsynlegra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að lestarsamgöngur raskist.

Í ágúst komu um 50 þúsund flóttamenn til Ungverjalands og í þessari viku hafa þúsundir farið þaðan með lestum til Austurríkis og Þýskalands. En í gær lokaði lögreglan skyndilega fyrir umferð flóttamanna um Keleti-lestarstöðina en þaðan fara flestar þeirra lesta sem eru á leið til annarra landa, svo sem Austurríkis og Þýskalands. Þeir einir sem eru með ESB-vegabréfsáritun fá að fara inn á stöðina.

Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa reist háa gaddavírsgirðingu á landamærum Serbíu til þess að koma í veg fyrir straum flóttafólks og segja það gert í samræmi við reglur ESB.

En gaddavírsgirðingin er engin hindrun í huga þeirra tuga þúsunda sem eru að koma frá Grikklandi á leið niður Balkanskagann. 

„Ef Evrópa ætlar að hleypa okkur inn, hvers vegna veita þeir okkur ekki vegabréfsáritun? Hvers vegna þurfum við að ferðast með leynd?“ spyr Bilal, Sýrlendingur frá Aleppo, í viðtali við AFP-fréttastofuna skammt frá landamærum Serbíu.

„Við óttumst að dag einn muni allt breytast, að jafnvel Þjóðverjar muni loka landamærunum þegar þeir hafa fengið nóg. Svo við verðum að ferðast hratt yfir,“ bætir hann við.

AFP
Um þriðjungur flóttamannanna eru börn
Um þriðjungur flóttamannanna eru börn AFP
AFP
AFP
Til átaka hefur komið milli flóttafólksins og lögreglu enda óttast …
Til átaka hefur komið milli flóttafólksins og lögreglu enda óttast þeir fyrrnefndu að Þjóðverjar muni loka landamærum sínum. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert