Schengen að liðast í sundur?

AFP

„Schengen-samstarfið hefur í raun liðast í sundur,“ sagði Miroslav Lajcak, utanríkisráðherra Slóvakíu, við blaðamenn í dag vegna flóttamannavandanas í Evrópu. Sagði hann ríkisstjórn sína reiðubúna að leggja fram mannskap og búnað til að styrkja gæslu á ytri landamærum Schengen-svæðisins. Samstarfið snýst um að fella niður landamæraeftirlit á milli aðildarríkja þess en styrkja eftirlitið þess í stað á ytri landamærunum.

Gríðarlegur fjöldi flóttamanna hefur komið til ríkja Evrópusambandsins af landi og sjó á þessu ári en hundruð þúsunda hafa flúið stríðsátök í Asíu, Afríku og Miðausturlöndum. „Við venjulegar aðstæður er erfitt að fá áritun inn á Schengen-svæðið en nú eru tugir þúsunda manna spásserandi um án þess að nokkur kannski ferðaskilríki þeirra,“ sagði Lajcak. Ráðherrann velti þeirri spurningu síðan upp hvort Schengen væri í gildi eða ekki.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, varaði við því fyrr í vikunni að Schengen-samstarfið gæti verið í hættu ef ekki tækist samkomulag á milli ríkja Evrópusambandsins um að skipta á milli sín þeim mikla fjölda flóttamanna sem komið hefðu til sambandsins undanfarin misseri. Ef það tækist ekki yrði það til þess að umræða um framtíð Schengen færi af stað. Sebastian Kurz, utanríkisráðherra Austurríkis, sagði á dögunum að eftirlitið á ytri landsmærum Schengen-svæðisins virkaði ekki.

Schengen-samstarfið var sett á laggirnar árið 1995 og er nefnt eftir bæ í Lúxemburg. Aðildarríki þess eru 22 af 28 ríkjum Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs, Liechtenstein og Sviss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert