Þriðjungur fanga ósáttur við flutning

Fangaklefi í Norgerhaven fangelsinu í Veenhuizen
Fangaklefi í Norgerhaven fangelsinu í Veenhuizen AFP

Þriðjungur þeirra norsku fanga sem verða færðir til Hollands er ósáttur við að þurfa að afplána í öðru landi. Þegar hafa 25 fangar verið fluttir til Hollands en í október er áætlað að 112 norskir fangar verði í Norgerhaven-fangelsinu í Norður-Hollandi. 

Ástæðan fyrir fangaflutningum er sú að fangelsi í Noregi eru yfirfull og langir biðlistar eftir afplánun.

Karl Hillesland, sem stýrir norska hluta Norgerhaven, staðfestir þetta en norsk yfirvöld hafa leigt fangelsið að hluta af hollenskum stjórnvöldum.

Yfir eitt þúsund sakamenn bíða nú afplánunar í Noregi og til þess að reyna að draga úr vandanum ákváðu norsk yfirvöld að leigja hollenskt fangelsi fyrr á árinu. 

Hollenskir fangar í Norgerhaven eru hins vegar lítt hrifnir og óttast að þeir þurfi að berjast fyrir því að halda klefum sínum í fangelsinu en samkvæmt hollenskum fjölmiðlum þykir fangelsið með þeim betri og meiri munaður þar en víðast annars staðar.

Til að mynda geta fangar í Norgerhaven sem eru með langa dóma ræktað grænmeti í garðinum, alið kjúklinga, eldað sjálfir og notið sveitalífsins í kring.

Segir fangelsið þægilegt og notalegt

„Þetta er mjög þægilegt og notalegt fangelsi,“ segir Kenneth Vimme, sem afplánar 17 ára dóm fyrir morð. Undanfarin þrjú ár hefur hann afplánað í Ullersmo-fangelsinu í Noregi en er einn þeirra sem fóru til Hollands í gær. Hann kvartaði að vísu yfir því við norska ríkisútvarpið í gærkvöldi að sjónvarpsstöðvarnar væru færri í nýja fangelsinu og að það hefðu ekki allir norsku fanganna farið til Hollands af fúsum og frjálsum vilja. Vimme óttast að það geti valdið spennu meðal norsku fanganna.

Af þeim 112 föngum sem verða fluttir til Hollands í fyrsta áfanga verkefnisins fara 79 af fúsum og frjálsum vilja. Hinir verða fluttir gegn vilja sínum. Alls munu 242 norskir fangar afplána í Norgerhaven.

Aðstandendur norsku fanganna eru ekki allir sáttir við flutninginn og bera fyrir sig háan ferðakostnað til að heimsækja þá í fangelsið. Vilja þeir að norska ríkið taki þátt í ferðakostnaðinum en tekið er fram af yfirvöldum að þeir fangar sem fái reglulega heimsóknir frá börnum verði ekki fluttir til Hollands.

Fulltrúi norska dómsmálaráðuneytisins segir að ferðalagið til Hollands þurfi ekki alltaf að vera dýrara og lengra en innan Noregs. „Þú getur verið frá Ósló en samt þurft að afplána í Bergen, Þrándheimi og jafnvel Tromsö,“ segir hann í samtali við AFP.

Samningur norska og hollenska ríkisins er til fimm ára en á þeim tíma vonast norsk yfirvöld til þess að ljúka endurbótum á elstu fangelsum landsins og byggja nýtt. Fangarnir munu afplána samkvæmt norskum reglum, sem þykja mjög frjálslyndar. Eins verða norsku fangarnir undir norskri yfirstjórn en aðrir fangaverðir eru hollenskir. Þeir munu snúa aftur til Noregs áður en afplánun þeirra lýkur. 

Hollensk yfirvöld áætla að 700 fangaklefar muni tæmast á næstu fimm árum. Þegar hefur verið samið við belgísk yfirvöld um flutning á belgískum föngum til nágrannalandsins, alls 550 föngum. 

242 norskir fangar afplána í Hollandi

Norgerhaven fangelsið Veenhuizen
Norgerhaven fangelsið Veenhuizen AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert