Miðjarðarhafi breytt í kirkjugarð

Yfir tíu þúsund sóttu um hæli í Svíþjóð í ágúst og hafa þeir aldrei verið fleiri á einum mánuði í áratug. Á sama tíma hafa aldrei áður jafn margir Svíar verið tilbúnir til þess að veita hjálparhönd.

Alls bárust Útlendingastofnun Svíþjóðar 11.743 hælisumsóknir í síðasta mánuði en í júlí voru þær 8.066 talsins og 6.619 í júní. „Við verðum að fara aftur til Bosníustríðsins 1992-93 til þess að sjá sambærilegar tölur,“ segir Anders Westerlund, talsmaður stofnunarinnar í samtali við TT.

80% eiga rétt á að sækja um pólitískt hæli

Það sem af er ári hafa 230 þúsund flóttamenn komið sjóleiðina til Grikklands en á sama tímabili í fyrra voru þeir 17.500 talsins. „Þetta er veldisaukning - ég veit ekki hvort einhver hafi getað undirbúið sig fyrir hana,“ segir aðstoðarráðherra Nikos Zois. Yfir 80% þeirra eru flóttamenn sem eiga rétt á að sækja um pólitískt hæli segir hann. 

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, er undir miklum þrýstingi frá fjölmiðlum um að sýna flóttafólki frá Sýrlandi samúð eftir að fjölmiðlar birtu myndir af þriggja ára gömlum sýrlenskum dreng látnum á strönd Tyrklands. Yfir 100 þúsund hafa skrifað undir bænaskjal þar sem Cameron er hvattur til þess að grípa til aðgerða en í gær varaði hann Breta við því að það að taka fleiri og fleiri flóttamenn inn í landið myndi ekki hjálpa.

Hr Cameron, sumarið er búið

„Hr Cameron, sumarið er búið... Nú þarf að takast á við mesta hættuástand sem Evrópa hefur staðið frammi fyrir síðan í seinni heimstyrjöldinni,“ mátti meðal annars lesa í fyrirsögn The Sun í dag. Við hlið hennar var mynd af Aylan Kurdi látnum á tyrkneskri baðströnd. 

Aylan drukknaði ásamt fimm ára gömlum bróður og móður á leið frá Tyrklandi til Grikklands. Að sögn sýrlensks blaðamanns hefur fjölskyldan verið á flótta, bæði innanlands sem utan, nánast öll þau fjögur ár sem stríðið hefur varað í Sýrlandi.

Mustefa Ebdi, er blaðamaður í Kobane, heimabæ Kurdi fjölskyldunnar. Hann segir að fjölskyldan hafi búið um tíma í Damaskus en hafi neyðst til þess að flýja þaðan. Ebdi segir að fjölskyldan beri ekki ættarnafnið Kurdi líkt og tyrknesk yfirvöld segja heldur sé væntanlega verið að vísa til uppruna þeirra, Kúrda. Ebdi segir að hið rétta sé Shenu.

Frá Damaskus til Aleppo þaðan til Kobane, Tyrkland, Kobane, Tyrkland

„Þau fóru frá Damaskus árið 2012 og héldu til Aleppo en þegar átökin brutust út þar fóru þau til Kobane. En aftur, þegar átök brutust þar út (við skæruliða Ríkis íslams) flúði fjölskyldan til Tyrklands, segir Ebdi.

Í janúar tókst að koma Ríki íslams í burtu frá Kobane og þá fór fjölskyldan aftur heim í þeirri von að ástandið þar væri þannig að þau gætu haldið áfram með líf sitt. En í júní komu liðsmenn Ríkis íslams aftur til borgarinnar og tóku fjölmarga íbúa í gíslingu. Á tveimur dögum drápu þeir 200 borgarbúa. Óöryggið neyddi fjölskylduna til þess að leggja af stað út í óvissuna á nýjan leik og ákvað hún að reyna að komast til Evrópu í gegnum Tyrkland. Þau dvöldu þar í Bodrum í einn mánuð, söfnuðu pening fyrir ferðalaginu hjá vinum og ættingjum. „Þau fóru til þess að leita að betra lífi,“ segir hann. 

Fjölskyldan, foreldrar og tveir synir, lögðu af stað frá Bodrum á litlum bát í gær og stefnan var tekin á grísku eyjuna KOs. En öldugangurinn var meiri en báturinn þoldi og hvolfdi honum. Öll fjölskyldan fyrir utan fjölskylduföðurinn drukknaði. 

Að sögn Ebdi verða lík þeirra flutt til Kobane á næstu tveimur sólarhringum þar sem þau verða jarðsett. Hann segist hafa reynt að ræða við fjölskylduföðurinn, Abdallah en það væri ógjörningur. „Ég reyndi að tala við hann en það var ekki hægt því hann grét bara.“

240 þúsund Sýrlendingar látnir, 4 milljónir á flótta auk fleiri milljóna á flótta heima fyrir

Alls hafa yfir 240 þúsund manns látist í stríðinu í Sýrlandi. Yfir fjórar milljónir hafa flúið til nærliggjandi landa og milljónir eru á flótta í heimalandinu.

Málefni flóttafólks er eitt helsta hitamálið í Evrópu þessa dagana og eru Bretar þar ekki undanskildir. Alan Travis skrifar í Guardian. „Við höfum gert þetta áður og við getum gert þetta aftur,“ og vísar Travis þar til fjölda flóttamanna sem fengu hæli í Bretlandi í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar og stríðanna á Balkanskaganum.

Þýskaland og Svíþjóð hafa verið framarlega í umræðunni um móttöku flóttafólks en talið er að um 74 þúsund muni sækja um hæli í Svíþjóð í ár. Westerlund segir að allt bendi til þess að þeir verði mun fleiri. Margir komi frá Tyrklandi, yfir til Grikklands og þaðan norður Makedóníu og Serbíu og inn í Ungverjaland. 

1,8 milljón flóttamenn frá Sýrlandi í Tyrklandi

Ekki hafa allir verið jafn hrifnir af því hversu vel Svíþjóð hefur tekið á móti flóttamönnum, má þar nefna Svíþjóðardemókrata, sem vilja draga úr flæði innflytjenda. Sá flokkur nýtur ört vaxandi fylgis meðal Svía og fengi 18% atkvæða hið minnsta yrði gengið til kosninga nú.

En á sama tíma segja hjálparstofnanir að þær hafi aldrei fengið jafn mikinn stuðning, bæði fjárframlög og annan stuðning og nú.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, lét leiðtoga ESB heyra það í dag og segir að ríki ESB séu að breyta Miðjarðarhafi í kirkjugarð flóttafólks. Sakar hann Evrópu um að bera ábyrgð á dauða allra þeirra flóttamanna sem hafa látist á flóttanum. Alls hafa 2600 flóttamenn drukknað í Miðjarðarhafi í ár.

Alls eru um 1,8 milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi og hafa stjórnvöld þar ítrekað ásakað ríki Evrópu um að hafa tekið þátt í að aðstoða.

Sýrlenskt barn á flótta
Sýrlenskt barn á flótta AFP
Flóttamannabúðir í Grikklandi
Flóttamannabúðir í Grikklandi AFP
Þessir flóttamenn komu fótgangandi frá Serbíu til Ungverjalands í gær.
Þessir flóttamenn komu fótgangandi frá Serbíu til Ungverjalands í gær. AFP
Börn í flóttamannabúðum í Trípólí í Líbanon
Börn í flóttamannabúðum í Trípólí í Líbanon AFP
Aylan drukknaði á flótta frá Tyrklandi til Grikklands í gær.
Aylan drukknaði á flótta frá Tyrklandi til Grikklands í gær. AFP
Aylan er einn þeirra fjölmörgu sem hafa farist á flóttanum. …
Aylan er einn þeirra fjölmörgu sem hafa farist á flóttanum. Enn fleiri hafa látist í heimalandinu þar sem stríð hefur geisað í fjögur ár. AFP
Fjölmörg börn hafa fæðst á flóttanum oft við aðstæður sem …
Fjölmörg börn hafa fæðst á flóttanum oft við aðstæður sem vart er hægt að ímynda sér á 21. öldinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert