Slepptu tveimur fréttamönnum

Frá Diyarbakir en hörð átök hafa geisað þar síðustu vikur. …
Frá Diyarbakir en hörð átök hafa geisað þar síðustu vikur. Fréttamennirnir voru handteknir í borginni. AFP

Tyrknesk yfirvöld slepptu í dag tveimur breskum fréttamönnum sem handteknir voru vegna gruns um að tengjast hryðjuverkasamtökum. Mennirnir starfa fyrir bandaríska fjölmiðilinn Vice News og voru mennirnir í Tyrklandi að fylgjast með átökum Tyrkja og Kúrda.

Þriðji maðurinn er enn í haldi en hann er íraskur túlkur. Mennirnir þrír voru allir ákærðir fyrir að hafa aðstoðað Ríki Íslams en þeir voru handteknir í borginni Diyarbakir fyrir viku síðan.

Vice News sem sérhæfir sig í rannsóknarfréttamennsku á internetinu, staðfesti að bresku fréttamennirnir Jake Hanrahan og Philip Pendlebury hefði verið sleppt eftir að þeir komu frammi fyrir dómara í Diyarbakir. Vice News lýsti hinsvegar yfir áhyggjum vegna fregnum þess efnis að túlkurinn Mohammed Ismael Rasool væri enn í haldi.

„Rasool er reyndur blaðamaður og túlkur sem hefur starfað í miðausturlöndum fyrir Vice News, Associated Press og  Al-Jazeera," sagði í yfirlýsingu. „Við köllum eftir því að tyrknesk yfirvöld leysi hann strax úr haldi.“

Það liggur þó ekki fyrir hvort að máli bresku fréttamannanna sé formlega lokið eða hvort þeir þurfi að vera um kyrrt í Tyrklandi. Vice News fordæmdi ákærurnar og kallaði þær „tilhæfulausar“ og „falskar“. Þar að auki kölluðu mannréttindasamtök eins og Amnesty International eftir því að mönnunum yrði sleppt.

Fyrri frétt mbl.is:

Breskir fréttamenn ákærðir í Tyrklandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert