Verri en nasistar

Írösk fjölskylda á flótta en liðsmenn Ríkis íslams hafa herjað …
Írösk fjölskylda á flótta en liðsmenn Ríkis íslams hafa herjað á íbúa landsins AFP

Forsætisráðherra Ástralíu,Tony Abbott, var harðlega gagnrýndur af gyðingum í dag eftir að hafa látið þau ummæli falla í útvarpsviðtali að liðsmenn Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi væru verri en nasistar þegar þeir gortuðu sig af illmennsku sinni.

Ástralar taka þátt í loftárásum á Ríki íslams í Írak og Abbott íhugar að bjóða einnig fram aðstoð við loftárásir á sveitir þeirra í Sýrlandi líkt og Bandaríkin hafa óskað eftir. Abbott líkir aðgerðum Ríkis íslams sem villimennsku á miðöldum og að samtökin séu af hinu illa.

„Það sem ég á við er að nasistarnir frömdu voðaverk en þeir skömmuðust sín fyrir og reyndu að hylja voðaverk sín. Þetta fólk hreykir sér af illsku sinni,“ sagði Abbott í viðtali við útvarpsstöðina 2GB í Sydney í dag.

Hann segir hegðun þeirra einstæða, hvernig villimennska þeirra minni helst á myrkar miðaldir. Bara það hvernig þeir tilkynna heiminum um voðaverk sín gerir það að verkum að þeir líkjast djöflinum enn meira.

Yfirmaður ráðs gyðinga í Ástralíu, Robert Goot, var ósáttur við ummæli Abbotts og segir þau óskynsamleg og óheppileg. Glæpir Ríkis íslams væru skelfileg en ekki sé hægt að líkja þeim við kerfisbundna smölun milljóna manna og að hafa byggt útrýmingarbúðir til þess að fremja fjöldamorð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert