Fékk á sig þungan spegil og lést

Tískurisinn þarf að greiða fjölskyldu drengsins 1,2 milljónir punda.
Tískurisinn þarf að greiða fjölskyldu drengsins 1,2 milljónir punda. AFP

Tískurisinn Hugo Boss hefur verið sektaður um 1,2 milljón punda eða um 273 milljónir íslenskra króna eftir að fjögurra ára drengur lést í verslun þeirra í Englandi í júní 2013. 114 kílóa spegill í mátunarklefa féll á drenginn sem varð til þess að hann lést á sjúkrahúsi stuttu síðar. Dánarorsök hans var höfuðáverkar. Sky News segir frá þessu.

Spegillinn var ekki fastur við vegg heldur var hann standandi. Í niðurstöðu réttarrannsóknar kom fram að spegillinn hefði átt að vera fastur við vegg. Dánardómsstjóri kallaði spegillinn jafnframt slysagildru.

Stjórnendur verslunarinnar viðurkenndu að öryggisreglur hafi verið brotnar í búðinni.

Dæmt var í málinu í Oxford og sagði dómarinn Peter Ross að Hugo Boss bæri ábyrgð á dauða drengsins. Hann sagði jafnframt að málið þyrfti að komast til helstu yfirmanna fyrirtækisins.

Ross sagði það augljóst að spegillinn hafi verið hættulegur og kallaði það kraftaverk að ekki hafi orðið slys fyrr.

Við réttarhöldin las fulltrúi fjölskyldu drengsins upp yfirlýsingu. „Ég vil þaka dánardómsstjóranum, Ross dómara og Hake frá Hugo Boss fyrir þeirra umhyggju. Það besta sem Austen gerði var að hjálpa öðrum. Í hans minningu vil ég biðja ykkur um að hjálpa einhverjum, sama hversu mikið eða lítið, til þess að aðstoða Austen við það að skapa vinalegri heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert