Skaut dóttur sína í höfuðið

AFP

Faðir sjö ára stúlku í Englandi var í marga mánuði að finna út hvar hún og fyrrum eiginkona hans bjuggu áður en hann keyrði upp að heimili þeirra og skaut stúlkuna í höfuðið. Sky News segir frá þessu.

Stúlkan hét Mary Shipstone og var að ganga inn á heimili sitt eftir að hafa farið í fyrsta fiðlutímann sinn. Stúlkan hélt á fiðlukassanum þegar faðir hennar skaut hana 11. september á síðasta ári. Hún stóð við hlið móður sinnar, Lyndsey Shipstone, sem var að opna hurðina þegar að Alromisse skaut.

Eftir árásina beindi Alromisse byssunni að sér sjálfum og fannst lík hans inni í bifreið sem hann hafði lagt fyrir utan heimili mæðgnanna. Nágrannar þeirra reyndu að endurlífga Mary á meðan beðið var eftir neyðaraðilum. Hún lést á sjúkrahúsi.

Shipstone fór frá Alromisse eftir að hann fór að beita hana ofbeldi. Í kjölfarið réð hann til sín einkaspæjara til þess að finna nýtt heimilisfang mæðgnanna. Hann neitaði þó að aðstoða Alromisse þar sem hann óttaðist að hann myndi reyna að ræna dóttur sinni.

Daginn sem morðið var framið leigði Alromisse bíl og heimtaði að hann hefði dökka glugga. Við réttarrannsóknina greindi dánardómsstjóri frá því að Mary hefði verið myrt og að faðir hennar hefði framið sjálfsmorð.

„Þetta var ekki skyndiákvörðun. Hann hafði skipulagt þetta í langan tíma,“ sagði dánardómstjórinn Alan Craze.

Við réttarrannsóknina lýsti Shipstone því hversu „glöð og spennt“ Mary hafði verið fyrir átta ára afmæli sínu daginn sem hún dó en það var viku síðar.

„Ég var að setja lykilinn í skránna og ég sagði Mary að hún myndi vera ánægð með hvað ég hafði gert við herbergið hennar. Það er það síðasta sem ég sagði við hana,“ lýsti Shipstone.

Hún áttaði sig fljótlega á því að fyrrum eiginmaður hennar hafði verið að verki eftir að hún sá tilfinningalaust andlit hans í gegnum rúðu Toyota bifreiðar fyrir utan húsið.

Shipstone sagðist ekki skilja af hverju Alromisse hafi viljað myrða Mary og lýsti því sem „öfgafullri aðgerð“.

„Hann hafði tækifæri til að skjóta mig líka en gerði það ekki þrátt fyrir að hann hataði mig mest. Þetta hlýtur að vera hefnd. Ef hann elskaði hana hefði hann aldrei beint hefndinni að henni. Hann hefur svipt mig dóttur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert