Sparkaði kanínu marga metra

Ekki liggur fyrir hvort að kanínan hafi lifað árásina af. …
Ekki liggur fyrir hvort að kanínan hafi lifað árásina af. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Maður sem sést sparka kanínu marga metra á myndskeiði hefur verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi og þarf þar að auki að greiða sekt upp á 7.000 pund eða 1.384.000 krónur. Maðurinn tók myndskeiðið upp sjálfur þegar hann var drukkinn.

Samkvæmt frétt Sky News heitir hann Zamual Mallinson og er 24 ára gamall. Mallinson var rannsakaður eftir að hann montaði sig á Facebook af því að hafa þjálfað hunda sína í því að berjast við refi og greifinga.

Sími mannsins var gerður upptækur í kjölfarið og þar fannst myndskeiðið.

Á því má sjá Mallinson nálgast kanínuna hljóðlega áður en hann sparkar í hana það harkalega að hún flýgur nokkra metra og lendir í runna. Síðan má heyra í Mallinson og öðrum manni hlæja. Ekki er vitað hvort að kanínan lifði af.

Réttarhöldin yfir Mallinson tóku þrjá daga og var hann dæmdur sekur um þrjú brot gegn dýraverndunarlögum. Honum hefur jafnframt verið bannað að eiga hunda í 10 ár og þarf að vinna samfélagsvinnu í 140 klukkustundir.

Hann þarf einnig að sitja í fangelsi í tólf vikur en við tekur síðan eins árs skilorðsbundið fangelsi.

Hægt er að sjá myndbandið í frétt Sky News en það er ekki fyrir viðkvæma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert