Birnir ráðast á rússneskan bæ

Á fjórða tug bjarndýra eru á hringsóli umhverfis bæinn.
Á fjórða tug bjarndýra eru á hringsóli umhverfis bæinn. AFP

Tugir soltinna bjarna sitja nú um smábæ í austurhluta Rússlands, þar sem þeir reika um göturnar og ráðast á bæjarbúa. Á undanförnum mánuði hafa meira en þrjátíu birnir gengið til byggða í Primorsky héraðinu, sem á landamæri að Norður-Kóreu og Kína. Hafa yfirvöld þurft að skjóta að minnsta kosti tvo þeirra.

Luchegorsk, 21 þúsund manna bær skammt frá kínversku landamærunum, hefur orðið sérstaklega illa úti. Tveir stórir birnir „ráða nú yfir“ bænum samkvæmt dagblaðinu Primorskaya en þeir flækjast um bæinn og hræða fólkið sem þar er. Sést hefur til fleiri bjarndýra innan bæjarins og er talið að á fjórða tug bjarna hringsóli í kringum bæinn.

Bæjarbúar segjast hræddir við að yfirgefa heimili sín og að á götunum heyrist aðeins í sírenum og hátölurum, þar sem fólki er ráðlagt að halda sig innandyra. Þá hafa leikskólar ekki hleypt börnum út á leiksvæði skólanna.

The Guardian greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert