Hundóánægðir með fánavalið

Fánarnir sem komust í úrslit og verða á kjörseðlinum í …
Fánarnir sem komust í úrslit og verða á kjörseðlinum í nóvember. Ljósmynd/www.govt.nz

Niðurstöður nefndar um nýjan þjóðfána Nýja-Sjálands hafa mætt mikilli andstöðu meðal íbúa landsins, en á mánudag tilkynntu yfirvöld hvaða fjóra fána landsmenn hefðu um að velja þegar gengið verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í nóvember.

Að minnsta kosti tveimur herferðum hefur verið hrint úr vör í mótmælaskyni; önnur miðar að því að bæta fimmta valkostinum á kjörseðilinn, en hin að því að fá fólk til að sniðganga atkvæðagreiðsluna.

Hönnun Red Peak endurspeglar jörð, fjöll, nótt og dag, en …
Hönnun Red Peak endurspeglar jörð, fjöll, nótt og dag, en Dustin horfði m.a. til þess að börn ættu auðvelt með að teikna fánann. Ljósmynd/http://aotearoaflag.tumblr.com

„Jæja, það er óhætt að segja að við höfum klúðrað þessu,“ sagði Karl Puschmann í pistli sínum í New Zealand Herald þegar valið lá fyrir og fjörtíu tillögum hafði verið fækkað í fjórar.

Alls bárust 10.300 tillögur að nýjum þjóðfána.

„Ég varð bara dapur,“ sagði álitsgjafinn Russel Brown. „Eftir alla þessa umhugsun höfum við endað með það sem við hefðum setið uppi með ef við hefðum ekki hugsað málið.“

Menn hafa m.a. gagnrýnt hversu úrslitatillögurnar eru áþekkar og að þeim svipi til merkja fyrirtækja. Þá vakti það óánægju að forsætisráðherrann John Key sagðist fylgjandi því að silfurburkni prýddi fánann, en þrjár tillaganna skarta einmitt plöntunni.

Fáninn sem margir kalla nú eftir að verði fimmta val á kjörseðlinum er hönnun Aaron Dustin, sem hann kallar „Red Peak“. Fáninn var meðal þeirra 40 fána sem komust áfram í forvali.

„Ég veit að þú vilt að ferlið sé lýðræðislegt, en satt besta að segja, að gefnum þessum valkostum þá er þetta ekkert val, þar sem þrjár tillaganna eru áþekkar og tvær eins fyrir utan litina,“ segir Rowan Simpson, hugbúnaðarhönnuður og fjárfestir, í opnu bréfi til Key, en það er hann sem stendur á bakvið herferðina fyrir fimmta valkostinum.

Þess ber að geta að Simpson á aðkomu að einu stærsta tæknifyrirtæki Nýja-Sjálands, Xero, en Dustin starfar hjá fyrirtækinu.

Í bréfinu segir Simpson að valið milli fánanna fjögurra sé eins og val milli fjögurra ólíkra hamborgara. Hann er fylgjandi því að skipt verðu um þjóðfána, en segir engan fjögurra eiga séns í þann gamla.

Ef marka má talsmann valnefndarinnar er ólíklegt að Red Peak verði á kjörseðlinum í nóvember, þegar Nýsjálendingar ákveða hvaða hönnun þeim þykir álitlegust. Sigurvegari í þeirri atkvæðagreiðslu verður í samkeppni við gamla fánann í annarri atkvæðagreiðslu í mars á næsta ári.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert