18 þúsund flóttamenn um helgina

Þýska ríkisstjórnin mun leggja sex milljarða evra, 869 milljarða króna, í sjóð til stuðnings flóttamönnum. Héruð og sveitarstjórnir munu fá þrjá milljarða evra í sinn hlut á meðan þrír milljarðar evra verða nýttir í stuðning við flóttamann af hálfu alríkisstjórnarinnar.

Í Þýskalandi hafa gagnrýnendur sakað kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, um að skapa hættuástand með því að opna landamæri Þýskalands fyrir flótta- og förufólki.

Yfir átján þúsund flóttamenn komu til Austurríkis og Þýskalands um helgina og segir kanslari Austurríkis, Werner Faymann, að þetta geti ekki haldið svona áfram og að stöðva verði straum fólks yfir landamærin.

Faymann segir að austurrísk yfirvöld muni smátt og smátt koma á eðlilegu ástandi en hann ræddi í síma við Merkel og ungverska forsætisráðherrann, Viktor Orban, í gær. Ungverjaland hafi lokað fyrir ferðalög flótta- og förufólks til Vestur-Evrópu en á föstudag var því hætt og farið að ferja fólk með rútum að landamærum Austurríkis.

Yfirvöld í Austurríki lýstu því yfir í gær að endi yrði bundinn á þær neyðarráðstafanir sem gerðar voru til þess að auðvelda flóttafólkinu, sem kom frá Ungverjalandi, að komast leiðar sinnar í Austurríki og til Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert