Danir stöðva lestarsamgöngur

Grátandi drengur, umkringdur af dönskum lögreglumönnum, reynir að koma í …
Grátandi drengur, umkringdur af dönskum lögreglumönnum, reynir að koma í veg fyrir að móðir hans yfirgefi lest og fari um borð í rútu í Rødby í Danmörku í dag. AFP

Dönsk stjórnvöld hafa stöðvað allar lestarsamgöngur á milli Danmerkur og Þýskalands eftir að lögreglan stöðvaði nokkur hundruð flóttamenn við landamæri ríkjanna.

Danska lögreglan lokaði einnig hraðbraut sem liggur á milli landanna þegar flóttamenn hófu að ganga til Danmerkur eftir að þeir voru þvingaðir til að yfirgefa lestir, að því er segir á vef BBC.

Haft ef eftir lögreglu að fólkið vilji komast til Svíþjóðar. Þangað stefna nú margir eftir að þarlend stjórnvöld hétu því að útvega öllum sýrlenskum hælisleitendum dvalarleyfi.

Lögreglan stöðvaði tvær farþegalestir í hafnarborginni Rødby, en um 200 flóttamenn voru um borð í þeim. Að sögn lögreglu neituðu margir að yfirgefa lestirnar því þeir vilji ekki láta skrá sig í Danmörku. 

Talsmenn dönsku járnbrautanna, DSB, segja að lestarsamgöngur á milli Danmerkur og Þýskalands hafi verið aflýst ótímabundið vegna umfangsmikillar vegabréfaskoðunar.

Evrópusambandið glímir við meiriháttar flóttamannavanda og hefur framkvæmdastjórn ESB lagt fram tillögu um að aðildarríki taki aukalega á móti 120.000 flóttamönnum, en að dreifa verði fjöldanm á milli ríkjanna. Það verði gert með lögbundnum flóttamannakvóta. 

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert