Olíurisar stöðva loftslagsaðgerðir

Olíufyrirtækjunum tókst að standa vörð um hagsmuni sína í Kaliforníu.
Olíufyrirtækjunum tókst að standa vörð um hagsmuni sína í Kaliforníu. AFP

Áróður af hálfu olíurisa varð til þess að breytingar voru gerðar á síðustu stundu á metnaðarfullu frumvarpi sem liggur fyrir ríkisþingi Kaliforníuríkis sem átti að stórdraga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Fyrirtækin réðust í umfangsmikið áróðursstríð gegn frumvarpinu.

Frumvarpið gerði ráð fyrir að bensínnotkun drægist saman um 50% fyrir árið 2030 í Kaliforníu auk þess sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap ríkisins væri aukið og byggingar yrðu gerðar orkunýtnari. Kevin de Leon, starfandi forseti öldungadeildar þingsins staðfesti hins vegar í gær að frumvarpinu verði breytt og ákvæðin um bensíneyðsluna tekin út.

Aðeins tveir dagar voru eftir af starfandi þingi ríkisins og sagði de Leon að því hafi ekki verið kleift að komast í gegnum það ryk sem olíuhagsmunirnir hefðu þyrlað upp í kringum frumvarpið á þeim skamma tíma sem var til stefnu fyrir þinglok.

Olíusamtök vesturríkja (Western States Petroleum Association, sem koma fram fyrir hönd olíufyrirtækja eins og Shell, ExxonMobile og Chevron, héldu því fram að frumvarpið væri „gerræðislegt og ómögulegt“. Í yfirlýsingu sögðu þau hins vegar að eftir að búið væri að fjarlægja ákvæðin um bensínnotkun væri hægt að „vinna saman að öðrum loftslagsbreytingaaðgerðum“.

Fyrirtækin hafa háð hart áróðursstríð gegn frumvarpinu undanfarið. Þannig birtu þau heilsíðuauglýsingar í dagblöðum auk sjónvarps- og útvarpsauglýsinga þar sem því var meðal annars haldið fram að frumvarpið myndi leiða til skammtana á eldsneyti í framtíðinni, takmarkana á akstri bifreiða og að yfirvöld myndu fylgjast með akstursvenjum fólks í gegnum tölvur í bílunum.

Niðurstaðan þykir áfall fyrir ríkisstjórann Jerry Brown sem hafði markað skýra umhverfisstefnu og aðgerðir í loftslagsmálum á síðasta kjörtímabili sínu. Hann verður einn þeirra stjórnmálaleiðtoga sem koma munu saman á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í París í desember þar sem ætlunin er að ná samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum.

Frétt The Guardian af sigri olíufyrirtækjanna í Kaliforníu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert