Morðingi mótmælir á þaki fangelsis

Óljóst er hverju nákvæmlega Horner er að mótmæla.
Óljóst er hverju nákvæmlega Horner er að mótmæla. Skjáskot af vef Sky News

Dæmdur morðingi hefur haldið uppi mótmælum á þaki Strangeways fangelsisins í Manchester, Englandi í meira en sólarhring.

Frá þessu greinir á vef Sky News en þar kemur fram að reynt hafi verið að semja við mótmælandann, hinn 35 ára Stuart Horner, um að koma niður en að allt hafi komið fyrir ekki.

 Horner segist vilja eyða 40 dögum og 40 nóttum á þakinu. Hann kleif 5,5 metra háa girðingu til að komast upp á þakið í gær, íklæddur íþróttabuxum og engum bol. Fljótlega klæddi hann sig úr buxunum og stóð m.a. og reykti í Manchester United nærbuxum einum fata. Hann hefur klifrað upp flaggstangir og reykháfa, brotið glerrúður og gengið um á þakröndinni en ekki er ljóst hverju nákvæmlega Horner er að mótmæla. Sky News segir hann þó hafa æpt ýmislegt um aðstæður í fangelsinu og að hann vilji skrá sig á spjöld fangelsissögunnar með því að slá met í þakdvöl.

Horner er með mat, vatn, sígarettur og teppi með sér á þakinu. Öllum götum í kringum fangelsið hefur verið lokað.

Horner skaut frænda sinn með afsagaðri haglabyssu árið 2011 eftir langvarandi fjölskylduerjur og hlaut 27 ára fangelsisdóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert