Vill þak á fjölda flóttamanna

Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands.
Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands. AFP

Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, kallar eftir því í blaðaviðtali í dag að Evrópusambandið taki í framtíðinni einungis við ákveðnum fjölda flóttamanna á ári en sendi aðra til öruggra landa í nágrenni heimalanda þeirra.

„Við getum ekki tekið við öllu því fólki sem flýr stríðshrjáð svæði eða fátækt og sem vill koma til Evrópu eða Þýskalands,“ sagði hann í samtali við þýska blaðið Der Spiegel. Ráðherrann vill að þau ríki sem taki við þeim flóttamönnum sem ekki fái hæli innan Evrópusambandsins verði veitt fjárhagsaðstoð til þess.

De Maiziere kallaði einnig eftir því fyrr í vikunni að reglur um hælisleitendur yrðu hertar. Flóttamenn yrðu sendir til þeirra ríkja Evrópusambandsins sem þeir hefðu fyrst komið til og bætur til þeirra lækkaðar. Með öðrum orðum að Dyflinarreglugerð Schengen-samstarfsins yrði virkjuð á nýjan leik en þýsk stjórnvöld ákváðu í ágúst að hætta að framfylgja henni í tilfelli Sýrlendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert