Góðar kveðjur og áminning um efndir

Alexis Tsipras tók við embætti forsætisráðherra í dag, eftir stutt …
Alexis Tsipras tók við embætti forsætisráðherra í dag, eftir stutt kosningahlé. AFP

Alexis Tsipras sór embættiseið í dag eftir að hafa farið með sigur af hólm í þingkosningunum sem haldnar voru í Grikklandi um helgina. Tsipras hefur tilkynnt forsetanum Prokopis Pavlopoulos að hann hyggist mynda meirihlutastjórn með þjóðernisflokknum Sjálfstæðum Grikkjum (ANEL).

Þetta er í annað sinn sem Tsipras sver embættiseið á átta mánuðum, en hans bíður það mikla verkefni að hrinda í framkvæmd sársaukafullum aðgerðum til að uppfylla kröfur lánadrottna gríska ríkisins.

Til stendur að tilkynna nýja ríkisstjórn á miðvikudag, en sama dag mun Tsipras halda til Brussel til að vera viðstaddur ráðstefnu Evrópuríkjanna um málefni flóttamanna. Áætlað er að 310.000 flóttamenn hafi lent á ströndum Grikklands það sem af er ári.

Ráðamenn í Þýskalandi, Frakklandi og á Spáni hétu því í dag að aðstoða Grikki, bæði við að ráða úr efnahagsvandanum sem ríkið á við að etja og flóttamannavandanum, sem svo hefur verið kallaður.

Góðum kveðjum fylgdi hins vegar áminning um verkefnin framundan, en Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi Evruhópsins svokallaða, þ.e.a.s. fjármálaráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins, sagðist hlakka til skjótrar skipan nýrrar ríkisstjórnar, sem hefði sterkt umboð til að halda umbótum áfram.

„Það er mikil vinna framundan og enginn tími til að missa,“ sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins.

Leiðtogar Evrópu hafa heitið stuðningi við Grikki, bæði vegna efnahagsmála …
Leiðtogar Evrópu hafa heitið stuðningi við Grikki, bæði vegna efnahagsmála og straums flóttamanna til landsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert