Hafa búið á flugvelli í rúmt ár

Mæðgurnar sofa í svefnpokum á bílastæði flugstöðvarinnar.
Mæðgurnar sofa í svefnpokum á bílastæði flugstöðvarinnar. Af Wikipedia

Þýskar mæðgur hafa haldið til á Larnaca flugvellinum í Kýpur í heilt ár eða síðan í ágúst 2014. Konunum var vísað úr landi í Ísrael eftir að vegabréfsáritanir þeirra runnu út. Þaðan fóru þar til Kýpur og hafa þær verið á flugvellinum síðan.

Málið þykir minna á kvikmyndina The Terminal með Tom Hanks í aðalhlutverk en konurnar hafa nýtt sér verslanir, salerni, veitingastaði og frítt internet flugvallarins í þrettán mánuði.

Í frétt The Telegraph kemur fram að konurnar hafi sofið í svefnpokum á gólfi bílastæðis flugstöðvarinnar allan tíman. Nöfn þeirra hafa ekki verið gefin út en þær virðast ekki vilja snúa heim til Þýskalands þrátt fyrir að hafa fengið boð um aðstoð frá sendiráði Þýskalands í Kýpur og öðrum embættismönnum.

Flugvallaryfirvöld í Larnaca vita ekki mikið um mæðgurnar en vita þó að nú sé nóg komið og að yfirvöld, hvort sem það er sendiráð eða einhver annar, þurfi að hjálpa þeim að yfirgefa flugvöllinn.

„Við reyndum okkar besta að koma mannlega fram við þær og hjálpa þeim, í rigningunni og hitanum, en það er ekki okkar hlutverk,“ sagði talsmaður samtaka flugvalla í Kýpur, Adamos Aspiris í samtali við The Telegraph.

„Okkar hlutverk er að aðstoða almenning í að ferðast til og frá okkar svæði, ekki að vera þar um kyrrt. Við erum flugvöllur, ekki hótel.“

Starfsmenn flugvallarins hafa nú kynnst konunum ágætlega. Talið er að móðirin eigi ættingja í Ísrael og vilji fara þangað aftur. Hún er þó ekki með vegabréfsáritun. Mæðgurnar hafa afþakkað alla hjálp frá flugvellinum og yfirvöldum. En þær neita þó að yfirgefa flugvöllinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert