Trúverðugleikinn í hættu

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að störfum.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að störfum. AFP

Yfirvöld vestanhafs hafa varað við því að haldi Rússar áfram að beita neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna líkt og þeir hafa gert hingað til, eigi ráðið á hættu að missa lögmæti sitt til lengri tíma. Þá gætu Bandaríkin og aðrar samhuga þjóðir ákveðið að sniðganga ráðið við ákvarðanatöku.

Rússland hefur fjórum sinnum beitt neitunarvaldi sínu í málum er varða Sýrland, en þarlend stjórnvöld hafa stutt dyggilega við bakið á Bashar al-Assad, Sýrlandsforseta. Rússar hafa einnig komið í veg fyrir samræmdar aðgerðir í málefnum Úkraínu, en þeir eiga beina aðild að málinu þar sem þeir innlimuðu Krímskaga og hafa stutt úkraínska aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins.

Að sögn Samönthu Powers, fastafulltrúa Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, hafa Bandaríkin og önnur ríki í auknum mæli leitað annað en til öryggisráðsins varðandi rannsóknir á hroðaverkum. Líklegt verði að teljast að áframhald verði á þeirri þróun.

„Þetta er Darwínskur heimur hér. Ef einhver ákveðin stofnun reynist óstarfhæf, þá leitar fólk annað,“ sagði Powers í samtali við Guardian.

Matthew Rycroft, sendiherra Bretlands við SÞ, sagði Sýrlandsmálið blett á samvisku öryggisráðsins. „Ég tel málið vera stærstu mistök ráðsins á síðastliðnum árum, og það mun vafalaust hafa afleiðingar í för með sér hvað varðar stöðu öryggisráðsins og raunar Sameinuðu þjóðanna í heild sinni.“

Bandaríkin hafa þrisvar sinnum beitt neitunarvaldinu á síðastliðnum áratug, til að forða Ísrael frá ávirðingum vegna framgöngu sinnar á palestínskum landsvæðum. Kína hefur beitt neitunarvaldinu sex sinnum, alltaf í samfloti með Rússum, en stjórnvöld í Moskvu hafa gripið til þess alls tíu sinnum á sama tímabili.

Fastafulltrúi Rússlands, Vitaly Churkin, iðrast einskis og segir að Rússar hafi beitt neitunarvaldinu til að standa vörð um trúverðugleika ráðsins, með því að koma í veg fyrir að það væri notað til að steypa stjórnvöldum af stóli.

„Sum lönd hafa reynt að blanda öryggisráðinu í aðgerðir til að koma í kring stjórnarskiptum í Sýrlandi og við höfum sagt þeim að það sé ekki á verksviði öryggisráðsins að detta í stjórnarskiptagír,“ segir Churkin.

Hér er að finna sérstaka umfjöllun Guardian um málið í tilefni 70 ára afmælis SÞ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert