Björguðu 241 úr haldi Boko Haram

AFP

Nígeríski herinn bjargaði stórum hópi fólks sem hafði verið í haldi hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í gær. Greint var frá því í dag að herinn hafi bjargað 241 manns, aðallega konum og börnum, í árásum á tvær herbúðir samtakanna í þorpunum Jangurori og Bulatori.

CNN segir frá þessu.

Í aðgerðunum voru jafnframt 43 skæruliðar handteknir, þar á meðal leiðtogi hópsins á svæðinu, Bulama Modu, en í tilkynningu frá hernum kom fram að Modu hafi litið á sig sem „fursta“ í þorpinu Bulakuri.

Báðar herstöðvarnar eyðilögðust í árásum hernum að sögn Sani Usman, talsmanns hersins í nígerísku dagblaði. Hermenn gerðu vopn Boko Haram jafnframt upptæk.

Þar að auki var maður handtekinn í þorpinu Wudla, grunaður um tengsl við samtökin. Hann afhenti hernum nöfn á hryðjuverkamönnum sem aðstoðuðu við árásir í Kamerún fyrr í mánuðinum að sögn Usman.

Árásir Boko Haram hafa verið áberandi í Nígeríu síðustu tvö árin en í gær var sagt frá því að 1.100 manns hefðu látið lífið í árásum þeirra síðan í maí. En samtökin hafa einnig ráðist á nágrannalönd Nígeríu sem hafa tekið þátt í baráttunni gegn samtökunum. 3. september réðst hópur Boko Haram skæruliða á markað í Kerawa í Kamerún. Um þrjátíu létu lífið og 145 særðust í árásinni. Aðeins nokkrum dögum fyrr höfðu skæruliðar ráðist á nígeríska þorpið Baanu á hestum og skutu 68 manns til bana.

Samtökin hafa einnig ráðist á þorp í Níger, Benín og Tsjad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert