Reyndi að vara við Savile

John Lydon, aka Johnny Rotten.
John Lydon, aka Johnny Rotten. Ljósmynd/Wikipedia

John Lydon, fyrrum söngvari pönksveitarinnar Sex Pistols, segist hafa varað við skemmtikraftinum og kynferðisbrotamanninum Jimmy Savile á 8. áratug síðustu aldar, en að ummæli hans hafi ekki verið birt og hann verið settur í straff af BBC.

Lydon, betur þekktur undir nafninu Johnny Rotten, uppljóstraði um málið í viðtali við Piers Morgan, og sagðist hafa sagt í viðtali árið 1978 að Savile „hefði áhuga á alls konar ógeðfelldum athæfum. Við vitum það öll en megum ekki tala um það. Ég hef heyrt ýmsar sögusagnir,“ sagði tónlistarmaðurinn á sínum tíma.

Í þætti Morgans, sem ber nafnið Life Stories, sagði Lydon: „Ég er afar bitur yfir því að Savile og hans líkir hafi fengið að halda sínu striki. Ég gerði mitt, ég sagði það sem ég þurfti að segja. En þeir birtu það ekki.“

Þá sagði hann einnig: „Ég var allt í einu bannaður í útvarpi BBC í þó nokkurn tíma, fyrir umdeilda hegðun mína. Þeir sögðu það ekki blátt áfram, heldur báru við öðrum afsökunum.“

Sex Pistols voru þegar í ónáð hjá BBC, en lagið God Save The Queen var sett á bannlista fyrirtækisins í maí 1977. Lydon útskýrði ekki nákvæmlega hvaða mynd bannið gegn honum hefði tekið en sagði: „Hafði ég ekki rétt fyrir mér? Ég held að flestir krakkar hafi viljað koma í Top of the Pops, en við vissum öll hvað vindla-japplarinn hafðist við.“

Savile, sem var jafnan myndaður með vindil í öðru munnvikinu, var stjórnandi hins gríðarvinsæla tónlistarþáttar Top of the Pops frá 1964-1984.

Guardian sagði frá.

Kynferðisbrot Jimmy Savile lágu í þagnargildi þar til hann dó.
Kynferðisbrot Jimmy Savile lágu í þagnargildi þar til hann dó.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert