Samskipti Króatíu og Serbíu á suðupunkti

AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi munu leggja sambandsríkjunum til fjóra milljarða evra, 577 milljarða íslenskra króna, vegna móttöku flóttafólks. Það er tvöfalt meira en áður. Eins mun ríkið greiða 670 evrur á mánuði fyrir hvern hælisleitanda sem tekið er á móti. Þetta staðfestir Angela Merkel, kanslari Þýskalands, við fjölmiðla eftir fund með ríkisstjórum 16 sambandsríkja.

Hún segir að lönd eins og Albanía, Kosovo og Svartfjallaland verði lýst sem örugg lönd til þess að stemma stigu við þann fjölda förufólks sem þaðan kemur til Þýskalands. Flestir þeirra sem sækja um hæli á Íslandi koma frá Albaníu og hér á landi eru þeir í flestum tilvikum einnig sendir aftur til heimalandsins.

Um hálf milljón flóttamanna, flestir frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku, hafa komið til Evrópu það sem af er ári. Flestir þeirra vilja setjast að í Þýskalandi. Fyrr í vikunni samþykktu ríki ESB að taka við 120 þúsund flóttamönnum til viðbótar við þá sem þegar hafði verið samþykkt að taka við.

Á sama tíma og Þjóðverjar verja meiru fé til móttöku flóttafólk þá deila Króatía og Serbía um för flóttafólks yfir landamæri ríkjanna og Ungverjar bæta í gaddavírsgirðinguna á landamærum sínum. Nú er verið að reisa nýja girðingu á landamærum Ungverjalands og Slóveníu.

Deilurnar milli stjórnvalda í Króatíu og Serbíu hafa ekki verið jafn illskeyttar síðan í stríðinu á Balkanskaganum á tíunda áratug síðustu aldar. Á sama tíma koma flóttamenn í þúsundavís niður Balkanskagann á leið sinni til ríkja norðar í álfunni. Króatía hefur lokað öllum landamærastöðvum sínum fyrir utan eina til þess að hægja á straumi flóttafólks og saka stjórnvöld í Zagreb stjórnvöld í Belgrad um að hafa samið við stjórnvöld í Ungverjalandi um að senda flóttafólkið þessa leið - það er inn í Króatíu.

Stjórnvöld í Ungverjalandi lokuðu landamærum sínum við Serbíu í síðustu viku og lögðu gaddavírsgirðingu eftir endilöngum landamærum sínum. Þetta þýddi að flóttamannastraumurinn sveigði af leið og hélt til Króatíu. Að sögn ungversku lögreglunnar komu þangað rúmlega tíu þúsund flóttamenn frá Króatíu á miðvikudag. Í gær staðfesti utanríkisráðherra Slóveníu að Ungverjar væru byrjaðir að reisa gaddavírsgirðingu á landamærum ríkjanna, sem eru fyrstu girðingarnar af því tagi síðan Schengen samkomulagið um frjálsa för tók gildi.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert