Lét sig hverfa í 31 ár

Petra Pazsitka.
Petra Pazsitka.

Þýsk kona sem hvar fyrir 31 ári og var talin látinn eftir að maður játaði að hafa orðið henni að bana, er komin í leitirnar. Petra Pazsitka var 24 ára þegar hún hvarf sporlaust árið 1984, en hvorki liggur fyrir hvað henni gekk til þegar hún lét sig hverfa, né af hverju hún ákvað að stíga aftur fram í dagsljósið.

Í ljós hefur komið að Pazsitka hafði undirbúið hvar sitt í nokkurn tíma og m.a. leigt íbúð á laun og lagt til hliðar jafnvirði 2.000 evra. Þegar hún lét af verða lagði hún stund á háskólanám í tölvunarfræði, en hennar var síðast vart á tannlæknastofu í Braunschweig 26. júlí 1984.

Pazsitka yfirgaf tannlæknastofuna kl. 15 til að taka rútu til foreldra sinna í Wolfsburg en umfangsmikil leit hófst þegar hún skilaði sér ekki þangað. Biðlað var til almennings um upplýsingar í sjónvarpsþætti í janúar 1985, en án árangurs.

Að lokum hóf lögregla morðrannsókn, þar sem grunur lék á að sama manneskja og hafði myrt 14 ára stúlku ári áður í skóglendi nærri biðstöðinni þar sem Pazsitka hugðist að taka rútuna til Wolfsburg hefði látið til skarar skríða á ný. Í marslok 1985 var 19 ára nemi handtekinn, nefndur Gunter K. í dómskjölum, og játaði hann að hafa orðið táningnum að bana.

Árið 1987 viðurkenndi hann einnig að hafa myrt Pazsitka og hún var úrskurðuð látin 1989.

Komst af án persónuskilríkja og bankareiknings

Upp komst um gabb konunnar þegar lögregla rannsakaði innbrot á heimili hennar í Dusseldorf fyrir tveimur vikum. Pazsitka upplýsti sjálfviljug að nafnið á dyrum hússins væri ekki hennar og að hún væri í raun og veru námsmaðurinn frá Braunschweig sem hvarf fyrir 31 ári. Hún gat framvísað gömlum skilríkjum til stuðnings frásögn sinni.

Pazsitka sagðist hafa búið í Dusseldorf í 11 ár, en áður hefði hún búið í nokkrum borgum í vesturhluta Þýskalands. Einhvern veginn hafði hún komist af án nýrrar kennitölu, ökuskírteinis, vegabréfs og bankareiknings.

Málið hefur komið yfirvöldum í opna skjöldu, en lögregla segir að ekkert mál verði höfðað á hendur Pazsitka þar sem hún hafi aldrei framvísað fölsuðum skjölum. Sjálf hefur konan, sem nú er 55 ára, ekki sagt orð um það hvað henni gekk til en hún hefur sagt að hún vilji hvorki eiga samskipti við almenning né fjölskyldu sína.

Pazsitka var spurð að því hvort hún hefði orðið fyrir ofbeldi eða kynferðisbrotum af höndum fjölskyldumeðlimar en hún neitaði því. Hún verður nú endurlífguð af yfirvöldum, ef svo má að orði komast.

Telegraph sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert