Tala um innrás múslíma

AFP

Öfgahreyfingar í Evrópu hefur vaxið fiskur um hrygg víða í Evrópu að undanförnu vegna þess mikla fjölda flóttafólks sem þangað hefur leitað í nauðum sínum. Öfgasinnar tala um innrás og undir það taka fjölmargir Evrópubúar, segja franskir sérfræðingar.

„Viðhorf þeirra er einfaldlega það að fólkið sem hingað kemur er hvorki flótta- né förufólk heldur innrás,“ segir Jean-Yves Camus, einn helsti sérfræðingur Frakka í öfgahægri hreyfingum.

Kröfuharðir ólöglegir innflytjendur fullir hroka

Formaður Þjóðfylkingarinnar, Front National, Marine Le Pen, segir að flóttafólkið séu kröfuharðir ólöglegir innflytjendur fullir hroka. Þrír af hverjum fjórum sé ekki fólk á flótta heldur fólk sem ætlar sér að komast inn í bótakerfið í álfunni. Hún segir að FN sé búið að vara við því að þetta gæti gerst í mörg ár.

Le Pen leggur til að tekið sé á móti fólkinu, því gefið að borða og hlýjað en síðan sé það sent þangað sem það kemur frá. 

Hentar vel hugmyndafræði öfgahópa

Nokkrir af helstu forsvarsmönnum Svíþjóðardemókrata hafa sakað föður Aylans, sýrlenska drengsins sem fannst drukknaður á tyrkneskri strönd, um að hafa viljað koma til Svíþjóðar í þeim eina tilgangi að fá ókeypis tannlæknaþjónustu. 

Camus segir að þar sem flestir flóttamannanna séu múslímar þá henti það hugmyndafræði öfgahægrimanna vel en þeir halda því fram að múslímar séu í krossferð gegn kristnum gildum í Evrópu.

Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins í Hollandi, lýkir flóttamannastraumnum við innrás íslam sem ógnar öryggi, menningu og þjóðareinkennum Evrópu. 

Camus segir að öfgahreyfingar hafi haldið þessu fram árum saman án þess að margir hafi tekið þar undir. Það sé hins vegar að breytast vegna þess mikla fjölda sem hefur flúið til Evrópu og vegna almenns ótta við aðgerðir Ríkis íslams.

„Þegar FN og Vlaams Belang (þjóðernisflokkur Flæmingja) segjast vera móti innflytjendum sem eru múslímar þá er það ekkert nýtt. En þegar þau halda stóra ráðstefnu í Brussel þremur vikum eftir árásina (í frönsku lestinni) þá ná þeir nýjum víddum,“ segir Camus og vísar þar til mannsins sem var yfirbugaður í lestinni á milli Amsterdam og Parísar 21. ágúst sl.

Franski sagnfræðingurinn Nicolas Lebourg segir að öfga þjóðernishreyfingar hafi fengið aukið fylgi í Evrópu undanfarin ár vegna atburða eins og hryðjuverkanna 11. september 2001 og fjármálakreppunnar 2008.

„Ef þú bætir þriðja atriðinu við, það er flóttamannastraumnum, þá ná þeir til mikils fjölda. Sérstaklega ef flóttamannastraumurinn heldur áfram,“ segir Lebourg. Þetta sé þegar farið að koma fram í skoðanakönnunum í Evrópu.

Svíþjóðardemókrtar mældust í fyrsta skipti stærsti flokkur Svíþjóðar í skoðanakönnun sem var birt í ágúst og Vlaams Belang er með tæplega 10% fylgi í skoðanakönnunum.

Í Frakklandi taka 34% kjósenda undir viðhorf Le Pen í málefnum innflytjenda og flokki hennar er spáð góðu gengi í héraðskosningum í desember.

Hreyfingin PEGIDA (Evrópskir föðurlandsvinir gegn íslamsvæðingu Vesturlanda) nýtur töluverðs fylgis í austurhluta Þýskalands en flestir Þjóðverjar taka hins vegar undir sjónarmið Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um að taka vel á móti flóttafólki.

Þegar myndin af Aylan var birt í fjölmörgum fjölmiðlum og fréttir bárust af rúmlega 70 manns sem köfnuðu í farangursrými flutningabíls í Austurríki fór samúðarbylgja um álfuna. Jafnvel leiðtogi ítalska Norðurbandalagsins, sem hefur barist á móti innflytjendum, Matteo Salvini, bauð fram heimili sitt í Mílanó fyrir flóttafólk. En bara þá sem voru að flýja stríð og tók fram að ef hann mætti velja á milli múslíma eða kristinna þá myndi hann velja kristna flóttamenn framyfir múslíma.

Samantekt The Local

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert