Breivik hótar hungurverkfalli til dauða

Fjöldamorðinginn Anders Breivik.
Fjöldamorðinginn Anders Breivik. AFP

Anders Behring Breivik hótar nú hungurverkfalli til dauða til að mótmæla því sem hann kallar níðandi og ómannúðlegar aðstæður í Skien-fangelsinu. Í opnu bréfi kvartar Breivik yfir því að aðstæður í fangelsinu hafi versnað til muna í þessum mánuði. Þá þurfi hann að sæta einangrun í klefa í 23 klukkustundir á hverjum sólarhring.

Lögmaður hans, Øystein Storrvik, sem hefur fyrir hönd umbjóðanda síns ákveðið að kæra norska ríkið fyrir mannréttindabrot, staðfestir framburð hans um versnandi aðstæður.

„Ég get staðfest að nú er minna af því sem áður var lítið. Algjör einangrun frá öðru fólki auk þess sem hann fær enn minni tíma með fangelsisvörðunum,“ segir Storrvik í samtali við Dagbladet.

„Það er erfitt að tjá sig um aðstæður einstakra fanga,“ segir dómsmálaráðherrrann Anders Anundsen. „Annars hef ég ekki ennþá lesið bréfið hans.“

Breivik kveðst hafa sætt mikilli misnotkun undanfarin fjögur ár. Telur hann meðal annars upp 884 þvingaðar líkamsleitir og tveggja og hálfs árs vist í einangrun þar sem hann fær fimm mínútur af mannlegum samskiptum á degi hverjum.

„Fangar geta upplifað lífið öðruvísi en við starfsmenn,“ segir fangelsisstjórinn Ole Kristoffer Borhaug. „Þeir eru margir sem finnast þeir þurfa að þola miklar takmarkanir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert