Lést við að klifra niður skorstein

Joshua Veron Maddux hvarf í maí árið 2008.
Joshua Veron Maddux hvarf í maí árið 2008. Skjáskot/Sky news

Lík unglingsstráks sem hvarf fyrir sjö árum í Bandaríkjunum fannst nýlega í skorsteini yfirgefins kofa, innan við mílu frá heimili hans.

Al Born, dánardómstjóri Teller-sýslu í Colarado-ríki telur að andlát hins 18 ára gamla Joshua Veron Maddux hafi verið slys. Engin merki hafi fundist um líkamlega áverka á borð við brotin bein eða skotsár við krufningu og engin ummerki fundust við eiturefnagreiningu um að hann hafi innbyrt eiturlyf.

„Talið er að hann hafi fest sig þegar hann reyndi að klifra niður skorsteininn,” sagði Born og bætti við að líklega væri þetta slys þar sem mun auðveldari leiðir væru til þess að fremja sjálfsmorð en að klifra niður skorstein.

Var heima um morguninn, en kom svo aldrei aftur

Faðir drengsins, Michel Maddux, segir fjölskylduna hafa leitað Joshua í fleiri ár, en síðast sást til Joshua að morgni hins 8. maí árið 2008.

„Ég vaknaði einn morguninn og hann var heima, svo kom hann aldrei aftur. Við héldum að hann væri með vinum sínum, en enginn hafði séð hann. Þetta er langur tími þegar þú ert að syrgja, á bið,” sagði hann í samtali við Sky-fréttastofuna.

Lík Joshua fannst þegar verið var að rífa yfirgefna kofann. Borið var kennsl á líkið með því að bera tennurnar saman við tannlæknaskýrslur. Einnig vantaði einnig framhluta hægri vísifingurs á líkið en Joshua hafði misst framhluta fingursins í hjólreiðaslysi þegar hann var yngri að sögn dánardómstjórans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert