Stal gögnum um 15 milljónir manna

15 milljónir manna urðu fyrir gagnalekanum.
15 milljónir manna urðu fyrir gagnalekanum. Ljósmynd/Wikipedia

Tölvuþrjótur hefur komist yfir persónuupplýsingar 15 milljóna einstaklinga. Um er að ræða viðskiptavini símafyrirtækisins T-Mobile og einstaklinga sem óskað hafa eftir því að hefja viðskipti hjá fyrirtækinu.

Lekinn, sem stóð yfir í tvö ár, varð hjá Experian, fyrirtæki sem vinnur úr umsóknum er snúa að lánstrausti viðskiptavina að því er fram kom í færslu forstjóra T-Mobile, John Legere, á vefsíðu fyrirtækisins.

Experian tryggði strax netbeina fyrirtækisins og hóf rannsókn á gagnalekanum. Hefur fyrirtækið gert bæði bandarískum og alþjóðlegum yfirvöldum viðvart.

Dulkóðuð gögn gætu einnig verið í hættu

„Rannsókn stendur yfir, en það sem við vitum á þessu augnabliki er að tölvuþrjóturinn komst yfir persónuupplýsingar 15 milljóna einstaklinga, þar á meðal eru nýir umsækjendur sem óskuðu eftir lánshæfismati fyrir fjármögnun þjónustu eða raftækja frá 1. september árið 2013 fram til 16. september árið 2015,” skrifaði Legere.

„Augljóslega er ég mjög reiður vegna gagnalekans,” sagði hann og bætti við að hann fari fram á að viðskiptasamband T-Mobile og Experian verði endurskoðað. Hans helsta áhyggjuefni þessa stundina sé þó að aðstoða alla viðskiptavini sem lentu í lekanum.

Persónuupplýsingarnar innihalda nöfn viðskiptavina, heimilisföng og fæðingardaga ásamt dulkóðuðum upplýsingum með kennitölum og númer persónuskilríkja, t.d. ökuskírteina eða vegabréfa.

Experian hefur greint T-Mobile frá því að mögulega sé hætta á að hægt sé að ráða dulkóðuðu gögnin að því er fram kemur í máli Legere.

Frétt USA Today um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert