Efasemdir um orð Rússa

Frakkar, líkt og Bandaríkjamenn, draga í efa orð stjórnvalda í Rússlandi um að skotmörk þeirra í Sýrlandi séu liðsmenn hryðjuverkahópa og telja að árásir Rússa beinist gegn stjórnarandstæðinum. 

François Hollande, forseti Frakklands, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ætla að ræða málefni Miðausturlanda á fundi í París íd ag. 

Franskar og bandarískar hersveitir taka þátt í baráttunni gegn Ríki íslams í Sýrlandi með loftárásum. Hið sama segjast rússnesk stjórnvöld gera en þau orð eru dregin í efa og talið að árásir þeirra beinist gegn öllum hópum sem berjast gegn einræðisstjórninni í landinu. Þetta er í samræmi við ásakanir af hálfu stjórnarandstöðunnar í Sýrlandi sem segir að allir þeir sem berjist gegn Bashar al-Assad forseta, sem er bandamaður Pútíns, eigi á hættu að verða næsta skotmark loftárása Rússa.

Á vef BBS er haft eftir Hollande að það sé mikilvægt að árásirnar haldi áfram gegn Ríki íslams, hver svo sem standi á bak við þær. En að loftárásirnar megi ekki beinast gegn öðrum.

Á fundi Pútíns og Hollande í París í dag verður auk þess rætt um Úkraínu og friðarviðræður þar.

Setja alla uppreisnarmenn undir sama hatt

Í fréttaskýringu Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Charles Lister, sérfræðingur í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi í Miðausturlöndum, segi að taka beri þessa staðhæfingu Rússa með fyrirvara. Þótt stjórninni í Moskvu sé greinilega mikið í mun að berjast gegn íslamistum hafi hún hneigst til þess að setja alla uppreisnarmennina í Sýrlandi undir einn hatt, líta á þá alla sem hryðjuverkamenn er ógni öryggi annarra ríkja, m.a. Rússlands.

Bandaríska leyniþjónustan CIA hefur þjálfað þúsundir sýrlenskra uppreisnarmanna í Jórdaníu til að reyna að efla „hófsamar“ hreyfingar sem hafa barist gegn einræðisstjórninni frá því að stríðið í Sýrlandi hófst í mars 2011 eftir að hún kvað niður mótmæli stjórnarandstæðinga með grimmilegum hætti. Bandarísk stjórnvöld óttast að rússneskar herþotur geri árásir á þessa uppreisnarmenn og fréttaveitan AFP hefur eftir sérfræðingum í málefnum Miðausturlanda að það hafi þegar gerst. Lofthernaðurinn hafi beinst að öllum hreyfingum sem berjast gegn einræðisstjórninni.

Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, áréttaði að loftárásirnar beindust eingöngu að Ríki íslams og enginn fótur væri fyrir fréttum um að ráðist hefði verið á aðrar hreyfingar. Talsmaður Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta sagði að markmiðið með lofthernaðinum væri að styðja sýrlensku stjórnina í baráttunni við Ríki íslams og „aðrar hryðjuverka- og öfgahreyfingar“. Talsmaðurinn var þá spurður hvort loftárásirnar beindust að Frjálsa sýrlenska hernum, fylkingu uppreisnarmanna sem njóta stuðnings vestrænna ríkja og berjast gegn stjórnarhernum og Ríki íslams. Talsmaður Pútíns dró þá í efa að Frjálsi sýrlenski herinn væri í raun til. „Hafa þeir ekki flestir gengið til liðs við samtökin Ríki íslams?“ spurði hann. „Frjálsi sýrlenski herinn var til en enginn veit með vissu hvort svo er ennþá.“

Charles Lister telur að þótt Ríki íslams og fleiri hreyfingar íslamista hafi sótt í sig veðrið í Sýrlandi sé það „augljóslega rangt“ að setja alla andstæðinga einræðisstjórnarinnar undir einn hatt. Hann gagnrýnir einnig Bandaríkjastjórn og segir að stefna hennar í málinu hafi misheppnast með hörmulegum afleiðingum. Hann skírskotar m.a. til frétta um að fyrsti hópurinn, sem CIA þjálfaði og vopnaði, hafi beðið ósigur fyrir hreyfingu, sem tengist al-Qaeda, í júlí sl. og segir að næsti hópur hafi afhent hreyfingunni helming allra farartækja sinna og 25% skotfæra sinna þegar hann kom til Sýrlands fyrir nokkrum dögum.

.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert