Einfari og afar náinn móður sinni

Íbúar í nágrenni skólans komu saman í gærkvöldi og minntust …
Íbúar í nágrenni skólans komu saman í gærkvöldi og minntust fórnarlamba fjöldamorðingjans. AFP

Chris Harper Mercer, 26 ára, sem skaut níu til bana og særði sjö í Umpqua háskólanum í Oregon í gær,  var afar einrænn og glímdi við andleg veikindi. Hann bjó með móður sinni og þau voru afar náin. Hún gerði í raun allt sem hún gat til þess að verja hann fyrir nánasta umhverfi. Lögregla skaut Mercer til bana fljótlega eftir að hún kom á vettvang fjöldamorðsins.

Samkvæmt Los Angeles Times bjó Mercer áður í Torrance í Kaliforníu ásamt móður sinni, Laurel Harper, áður en þau fluttu til Oregon. Faðir hans, Ian Mercer, býr í Tarzana í Kaliforníu. Hann segir í samtali við LAT að það eina sem hann geti sagt að hann sé í áfalli. „Þetta er búið að vera skelfilegur dagur.“

Alltaf eins klæddur - í hermannagalla

New York Times greinir frá því að Mercer hafi verið mjög náinn móður sinni og hún hafi gert allt til þess að verja hann fyrir öðru fólki og umhverfinu. Að sögn nágranna var hann alltaf eins klæddur, í hermannaklossum, grænum hermannabuxum og hvítum stuttermabol. 

Nágrannar þeirra mæðgina í Torrance minnast hans sem viðkvæms ungs manns, sem var krúnurakaður með dökk gleraugu, og forðaðist tengsl við annað fólk. 

Rosario Lucumi, sem var nágranni þeirra og tók sama strætó og Mercer á hverjum morgni, talar um það hversu óþreyjufullur hann hafi virst vera þar sem hann sat í vagninum með heyrnartól hlustandi á tónlist á leið í skólann. Hún segir að þau mæðgin hafi verið afar náin en þau bjuggu saman í íbúð með einu svefnherbergi. „Þau voru alltaf saman,“ segir Lucumi í viðtali við NYT.

Bryan Clay, 18 ára, segist hafa spurt Mercer hvers vegna hann væri alltaf í hermannafötum og eins klæddur en Mercer hafi eytt talinu. „Hann talaði aldrei um sjálfan sig.“

Því fleiri sem þú drepur því meiri athygli færðu

Mercer var skráður á stefnumótasíðuna Spiritual Passions þar sem hann lýsti sér sem feimnum við fyrstu kynni en hlýlegum manni sem líði betur í litlum hópum. Hann segist ekki verið trúaður og að hann væri íhaldsmaður. Notendanafn hans er  ironcross45 sem er oft notað af hægri öfgamönnum með vístun í járn krossinn, tákn þýska hersins á tímum nastista.

Á vef Telegraph kemur fram að hann hafi einnig tengst inn á myndskeiðasíðu undir notendanafninu Lithium_Love, þar sem hann tjáði sig um Vester Flanagan, fyrrverandi sjónvarpsfréttamann sem skaut tvo fyrrverandi vinnufélaga til bana í beinni útsendingu.

Þar segir Mercer það áhugavert að svo margir sem eru eins og hann, einir og óþekktir, verði þekktir við það að úthella blóði þá viti allur heimurinn hver þeir eru.

„Maður sem er öllum óþekktur en nú þekktur af öllum. Andlit hans blasti við á hverjum skjá, nafn hans var á vörum allra jarðarbúa, allt vegna einsdags. Það virðist vera þannig að því fleiri sem þú drepur því meiri athygli færðu,“skrifar Mercer um Flanagan.

Hreifst af IRA

Svo virðist vera að Mercer hafi sótt félagsskap á netinu. Á MySpace mátti sjá hann á mynd með riffil í hönd. Þar skrifar hann um hversu mikinn áhuga hann hafi á Írska lýðveldishernum, IRA, á Norður-Írlandi. Þar mátti líka finna myndskeið frá átökum á N-Írlandi og undir hljómar lagið The Men Behind the Wire.  Á annarri mynd má sjá forsíðu An Phoblacht, dagblað Sinn Feinn, pólitísks arms IRA.

Í raunheimum reyndi móðir hans að verja hann fyrir áreiti í nánasta umhverfi, svo sem hávaða frá börnum í nágrenninu og gelti hunda í hverfinu. Hún gekk hús úr húsi til þess að fá nágranna til að skrifa undir bænarskjal um að eigandi íbúðarinnar sem þau mæðgin bjuggu í til að eitra fyrir kakkalökkum í íbúðinni. Sagðist hún gera það vegna sonar síns sem glímdi við andleg veikindi og þyldi ekki kakkalakka.

Svo virðist sem Mercer hafi haft sig meira í frammi við nágranna eftir að hann flutti ásamt móður sinni til Oregon. Hann hafi öskrað á nágranna fyrir að reykja út á svölum og hafi verið afar óvinsamlegur maður sem enginn vildi hafa samskipti við.

Að sögn vitna gekk Mercer stofu úr stofu í Umpqua skólanum í gærmorgun og skaut fórnarlömb sín með skipulögðum hætti. Einhver þeirra sem særðust í árásinni eru í lífshætti. 

Eina landið sem upplifir fjöldamorð af þessu tagi

Mercer bað nemendur um að standa upp ef þeir væru kristnir. Þeir sem stóðu upp voru skotnir, segir faðir stúlku sem var í hóp þeirra sem lifðu árásina af.

Stacy Boylan segir í samtali við CNN að byssumaðurinn hafi sagt við þau sem stóðu upp:„ Gott þar sem þú ert kristinn má munt þú sjá sjá Guð eftir eina sekúndu.“ Þetta hefur Boylan eftir dóttur sinni, Ana, sem lifði af með því að þykjast vera dáin. 

Ekki er talið að Mercer tengist skólanum á neinn hátt, hvorki sem nemandi né starfsmaður. Eins er ekki vitað hver ástæða morðanna er. Ólíklegt er að þau tengist trúarmálum ef marka má ást hans á IRA samtökunum sem tengjast kaþólsku kirkjunni og að hann spyrji fórnarlömb sín um trú þeirra. 

Það virðist líka vera skoðun Barack Obama, Bandaríkjaforseta, sem sagði þegar hann ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi að fjöldamorð af þessu tagi séu að verða vanaleg í Bandaríkjunum. 

„Við erum ekki eina landið í heiminum þar sem fólk með andleg veikindi býr eða fólk sem vill skaða aðra. En við erum eina þróaða landið í heimum sem upplifir fjöldamorð af þessu tagi á nokkurra mánaða fresti,“ sagði hann, samkvæmt frétt BBC. 

Cassandra Welding, nemandi í Umpqua, segir að hún hafi heyrt 35-40 skot koma frá nærliggjandi kennslustofu og hún hafi séð samnemanda sinn skotinn þegar hún opnaði hurðina til að kanna hvaðan hávaðinn kæmi.

Vissum ekki hvort þetta yrðu okkar síðustu orð

„Við læstum hurðunum, slökktum ljósin og ... við vorum meira og minna í áfalli og hringdum í 911 (neyðarlínuna) og foreldra okkar og sögðum Ég elska ykkur þar sem við vissum ekki hvað myndi gerast. Hvort þetta yrðu okkar síðustu orð,“ segir Welding í samtali við AFP fréttastofuna.

Að sögn lögreglu var tilkynnt um árásina klukkan 10:38. Lögregla fór strax á vettvang og eftir að hafa skipst á skotum við árásarmanninn var hann úrskurðaður látinn. Lögregla rannsakar nú upplýsingar á síðum Mercers á samfélagsmiðlum. Einhverjir miðlar segja að hann hafi greint frá fyrirætlunum sínum á netinu áður en hann lét til skarar skríða.

Í einhverjum fjölmiðlum er talað um að lögregla hafi lagt hald á þrjár skammbyssur og einn riffil á vettvangi auk snjallsíma sem var í eigu árásarmannsins, sem var klæddur skotheldu vesti.

Lögreglustjórinn í Douglas sýslu,  John Hanlin, sagði við fjölmiðla að hann myndi ekki nafngreina árásarmanninn. „Þið munið aldrei heyra mig nafngreina hann,“ sagði Hanlin. „Ég mun ekki veita honum þann heiður sem hann sennilega leitaði eftir með þessari hryllilegu og löðurmannlegu aðgerð.“

142 skotárásir í skólum á 33 mánuðum

Skotárásir í skólum í Bandaríkjunum eru tíðar. 20 nemendur og sex starfsmenn Sandy Hook grunnskólans í Connecticut létust þegar tvítugur piltur, Adam Lanza, réðst inn í skólann árið 2012.

Á miðvikudag dró nemandi sem lenti í rifrildi við skólastjórann í menntaskóla hans í Suður-Dakóta upp byssu og skaut hann. Starfsfólk skólans náði að yfirbuga nemandann skömmu síðar.

Alls hafa 142 skotárásir verið framdar í Bandaríkjunum frá fjöldamorðunum í Sandy Hook skólanum 14. desember 2012, eða fyrir rúmum 33 mánuðum. 

BBC

AFP
AFP
Særðir fluttir úr Umpqua skólanum.
Særðir fluttir úr Umpqua skólanum. AFP
Leitað á nemendum fyrir utan skólann
Leitað á nemendum fyrir utan skólann AFP
AFP
Lögregla leitar í Umpqua skólanum í Oregon eftir að árásarmaðurinn …
Lögregla leitar í Umpqua skólanum í Oregon eftir að árásarmaðurinn var felldur. AFP
Roseberg, Oregon, skammt frá skólanum
Roseberg, Oregon, skammt frá skólanum AFP
AFP
AFP
Forseti Bandaríkjanna Barack Obama ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi.
Forseti Bandaríkjanna Barack Obama ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert