Kærður vegna kynþáttahaturs

Lutz Bachmann leiðtogi PEGIDA.
Lutz Bachmann leiðtogi PEGIDA. AFP

Þýskir saksóknarar lögðu í dag fram kæru gegn Lutz Bachmann, meðstofnanda þýsku öfgahreyfingarinnar PEGIDA en hann er kærður fyrir að hvetja til kynþáttahaturs.

Bachmann er 42 ára gamall. Hann hefur kallað hælisleitendur „dýr“, „rusl“ og „skítugan skríl“ á Facebook. Bachmann og PEGIDA vakti athygli í janúar þegar að 25.000 manns mættu á fjöldafund samtakanna.

Fjöldafundirnir urðu vikulegir viðburðir en ásókn í þá dvínaði fljótt. PEGIDA lagði síðan upp laupana í kjölfar ummæla Bachmann á samfélagsmiðlum og myndum sem sýndu hann með „Hitlers skegg“ og hárgreiðslu.

Síðustu vikur hafa allt að 10.000 manns safnast saman á fjöldafundum samtaka sem berjast gegn íslömskum áhrifum á Vesturlöndum í Þýskalandi. Á sama tíma hafa þýsk stjórnvöld tekið á móti þúsundum flóttamanna.

Saksóknarar í borginni Dresden, þar sem PEGIDA var stofnað, halda því fram að Bachmann hafi „ráðist á virðingu flóttamanna sem koma til Þýskalands, móðgað þá og ráðist á orðspor þeirra til þess að hvetja til haturs.“

Ef Bachmann er sakfelldur gæti hann þurft að sitja í fangelsi í fimm ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert