Morðingja ísraelskra hjóna leitað

AFP

Hundruð ísraelskra hermanna taka þátt í leitinni af morðingjum ísraelskra hjóna á Vesturbakkanum.

Fastlega er gert ráð fyrir því að Palestínumaður hafi myrt landtökufólkið Eitam og Naama Henkinds er þau óku á milli landtökubyggðanna Itamar og Elon More í gærkvöldi ásamt ungum börnum sínum.

Fjögur börn þeirra, á aldrinum fjögurra mánaða til níu ára, fundust heil á húfi í aftursæti bifreiðar þeirra.  Henkins fjölskyldan bjó í landtökubyggðinni Neria norðvestur af Ramallah. Talsmaður ísraelska hersins, Arye Shalicar, segir að víðtæk leit standi yfir að ódæðismönnunum og herinn njóti aðstoðar leyniþjónustunnar við verkið.

Annar talsmaður Ísraelshers, Peter Lerner, segir að þeim hafi verið slátrað fyrir framan börn sín og sjúkraliði sem kom á vettvang segir að aðstæður á vettvangi hafi verið erfiðar. „Við sáum bíl á miðri götunni og við hliða hans lá maður á fertugsaldri með skotsár á efri hluta líkama síns,“ segir Boaz Malka. 

Einungis nokkrum klukkustundum áður en morðin voru framin ávarpaði forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og daginn áður hafði forseti Palestínu, Mahmud Abbas ávarpað þingið. Að sögn Abbas hamlar það friðarferlinu að Ísraelar neita að láta fanga lausa og auka við landtökubyggðirnar í Palestínu.

Netanyahu hefur fordæmt morðin sem hann segir framin að áeggjan Palestínumanna. Hann heitir því að leyniþjónustan muni ná morðingjunum og að öryggi ísraelskra borgara verði aukið.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert