Gerðu loftárásir á höfuðvígi Ríkis íslams

Rússar hófu fyrstu hernaðarlegu aðgerðir sínar utan fyrrum Sovétríkjanna síðan …
Rússar hófu fyrstu hernaðarlegu aðgerðir sínar utan fyrrum Sovétríkjanna síðan árið 1979 þegar þeir hófu afskipti af ástandinu sem nú ríkir í Sýrlandi. AFP

Rússar hafa, að eigin sögn, varpað sprengjum á höfuðvígi Ríkis íslams í Sýrlandi, sem staðsett er í borginni Raqqa, á sama tíma og Vladimir Pútín Rússlandsforseti sætir mikilli gagnrýni frá Vesturlöndunum og Persaflóaríkjunum vegna herstuðnings Rússa við Sýrlandsforseta, Bashar al-Assad.

Rússnesk stjórnvöld tilkynntu að þau hefðu ráðist á „æfingabúðir Ríkis íslams“ og stjórnstöð í loftárásum á fimmtudag nærri vígi vígamanna á sama tíma og bandalag Vesturlanda með Bandaríkin í broddi fylkingar hvatti Rússa til að láta af árásum sínum á uppreisnarmenn sem vilja koma al-Assad frá völdum.

Aðgerðir Rússa kynda undir ofstæki og róttækni í Sýrlandi

Segja Vesturlöndin Rússa skvetta olíu á ófriðarbálið sem ríki í landinu eftir nokkurra ára tímabil af borgarstyrjöldum.

„Þessar hernaðaraðgerðir ýta undir stigmögnun ástandsins og kynda undir róttækni og ofstæki,” sögðu sjö lönd í yfirlýsingu, þar á meðal Tyrkland, Sádi-Arabía og Bandaríkin.

„Við skorum á rússnesk stjórnvöld að láta tafarlaust af árásum sínum á stjórnarandstöðuna í Sýrlandi og óbreytta borgara,” segir í yfirlýsingunni.

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, sagði á fimmtudag að árásum Rússa hefði verið beint að Ríki íslam og Al-Nusra Front, afsprengi Al-Qaeda, og öðrum hryðjuverkahópum.

Tyrkland og Vesturlöndin halda öðru fram, og segja Rússa hafa ráðist gegn öfgalausum hópum sem berjast gegn stjórnarháttum al-Assad.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að með loftárásum Rússa hafi þeim tekist að gera stjórnstöð Ríkis íslams óvirka. Innviðir sem nýttir voru til þjálfunar vígamanna hafi einnig verið gjöreyðilagðir, að því er fram kom í máli ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert