Vill skaðabætur frá Volkswagen

Verksmiðja Volkswagen í Suður-Afríku.
Verksmiðja Volkswagen í Suður-Afríku. AFP

Hluthafi í Volkswagen hefur lagt fram kæru á hendur bílaframleiðandanum vegna skaða sem hann hlaut þegar hlutabréf fyrirtækisins tóku dýfu eftir að upp komst um að aflrásir ýmissa módela dísilbíla hefðu gefið upp ranga losun vélanna á gróðurhúsalofttegundum, aðallega hættulegu nitursambandi.

AFP-fréttaveitan greinir frá þessu og í fréttinni segir ennfremur að þetta sé fyrsta kæran sem hluthafi leggur fram á hendur þýska bílaframleiðandans  vegna málsins.

Stefnandinn hafði nýlega keypt hlutabréf í Volkswagen þegar upp komst um svikin hinn 18. september. Tapaði hann umtalsverðum fjármunum að sögn Marc Schiefer hjá lögfræðistofunni Kanzlei Tilp. Fer hluthafinn fram á 20 þúsund evrur í skaðabætur frá Volkswagen, sem nemur rúmlega þremur milljónum króna.

Hópmálsóknir tíðkast ekki í Þýskalandi, líkt og í Bandaríkjunum og Bretlandi, en Volkswagen gæti þó þurft að verjast málsóknum hluthafa sem urðu fyrir tapi vegna svindlsins, en svindlið leiddi til 40 prósenta hruns á markaðsvirði félagsins.

Í dag hafa hlutabréf Volkswagen AG lækkað um 4,26 prósent og standa nú í 92,49 evrum á hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert