300 Svíar til liðs við öfgahreyfingar

Í mynd sem samtökin birtu á netinu sést fáni Ríki …
Í mynd sem samtökin birtu á netinu sést fáni Ríki íslams sunnan við Kobane. AFP

Yfirmaður Säpo, Anders Thornberg, segir af þessum 300 hafi 40 farist í bardögum og að 125 þeirra séu enn að berjast í Írak og Sýrlandi.

Sænska fréttastofan TT hefur eftir Hans Brun, sérfræðings í hryðjuverkasamtökum við Kings College í London, að þetta sé há tala og bendir á að í seinni heimsstyrjöldinni hafi aðeins 180 Svíar gengið til liðs við SS af sjálfsdáðum. Þetta séu mun fleiri en hjá öðrum sambærilegum ríkjum.

Thornberg segir að öfgasinnaðir íslamistar í Svíþjóð hafi haft mikil áhrif og hvatt fólk til þess að fara og berjast.

„Við höfum aldrei séð annað eins áður. Fyrir Sýrland og Ríki íslams þá höfðu kannski 40 farið til Jemen, Afganistan, Pakistan og annarra landa. Þá áttum við auðvelt með að fylgjast með þeim. Nú eru þetta 300 á þremur árum,“ segir Thornberg.

Säpo er með 115 Svía á lista sem hafa snúið heim aftur. Thornberg telur að þeir séu ekki hryðjuverkamenn en þeir sem koma heim aftur fá oft sérmeðferð, sambærilega því sem rokkstjörnur fá og verða þar af leiðandi að fyrirmyndum í huga ungs fólks. 

Hann segir að Säpo fylgist með þeim og það sé mikilvægur hluti af því að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir í Svíþjóð.

Í síðasta mánuði snéri unglingspiltur sem hvarf að heiman í vor aftur heim en talið er að hann hafi barist með Ríki íslams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert