Barnslíki skolaði á land

Þessi börn komust heil á húfi til grísku eyjunnar Kos …
Þessi börn komust heil á húfi til grísku eyjunnar Kos - en svo er ekki farið með alla. Í dag skolaði líki smábarns á landi á eyjunni. AFP

Illa farið lík smábarns fannst á strönd grísku eyjunnar Kos í dag en þangað streyma flóttamenn frá Tyrklandi. Líkið er af dreng, sex til tólf mánaða gömlum, klæddum í grænar buxur og hvítan stuttermabol. Líkið fannst á hótelströnd á eyjunni sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna.

Samkvæmt fréttum grískra fjölmiðla telja yfirvöld að drengurinn sé úr flóttamannafjölskyldu sem reyndi að komast til eyjunnar Kos á litlum árabát. Lík hans var flutt á sjúkrahús eyjunnar þar sem það verður krufið.

Rúmur mánuður er liðinn síðan líki Aylan, þriggja ára sýrlensks drengs, skolaði á land á tyrkneskri baðströnd. Skelfilegar ljósmyndir af líki hans höfðu áhrif á að ríki Evrópu tóku sig saman um að leggja aukna áherslu á að sinna flóttafólki sem streymir til álfunnar.

Gríska strandgæslan sinnir því ömurlega starfi að hirða upp lík úr sjónum og á ströndum eyja á sama tíma og óttast er að ástandið eigi bara eftir að versna á næstu mánuðum þegar vetur gengur í garð. 

Í september drukknuðu að minnsta kosti fimmtán börn þegar yfirfullur bátur sem þau voru farþegar í hvolfdi í óveðri í Eyjahafi, skammt frá eyjunni Farmakonisi.

Um 630 þúsund manns hafa komið með ólöglegum hætti til ríkja Evrópusambandsins á fyrstu níu mánuðum ársins.

Yfir 310 þúsund þeirra hafa komið að landi í Grikklandi samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaaðstið Sameinuðu þjóðanna. Um þrjú þúsund hafa dáið eða horfið á leiðinni.

Samkvæmt frétt Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung í dag hafa Evrópusambandið og Tyrkland náð samkomulagi um aðgerðir til þess að draga úr fjölda flóttamanna sem koma til ríkja ESB.

Tyrkir munu auka eftirlit á landamærum sínum við ESB með því að fara í samstarf við landamæraeftirlit ESB, Frontex, á Eyjahafi.

Aylan drukknaði ásamt bróður og móður er fjölskyldan reyndi að …
Aylan drukknaði ásamt bróður og móður er fjölskyldan reyndi að komast frá Tyrklandi til Kos AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert