Byssulöggjöf skiptir ekki máli

Repúblikaninn Donald Trump, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi flokksins, segir að byssulöggjöf hafi ekkert með flóðbylgju skotárása í Bandaríkjunum að gera og segir að harmleikir af þessu tagi séu gangur lífsins.

„Það skiptir engu hvað þú gerir, þú munt glíma við vandamál og það er gangur lífsins,“ segir Trump í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina. Hann segir að þar skipti ekki máli hvaða tegund glæps er um að ræða. Því glæpir séu og verði til. Þrátt fyrir hörð viðurlög sé alltaf fólk sem smýgur í gegn. 

Trump lét þessi ummæli falla þegar farið var yfir fréttir vikunnar, þar á meðal fjöldamorð í Oregon þar sem ungur maður skaut níu manns til bana áður en hann skaut sig til bana eftir að hafa skipst á skotum við lögreglu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, brást hart við fregnum af árásinni og hvatti almenning til þess að bregðast við með því að krefjast þess að lög verði hert varðandi byssueign. Hann segir að eina leiðin sé að koma í veg fyrir að fólk sem glímir við raskanir eigi greiðan aðgang að vopnum sem það getur notað til þess að beita fjölda fólks ofbeldi.

Trump var ítrekaður spurður að því í viðtalinu hvað væri til ráða en hann neitaði að koma með lausn en sagði að byssulöggjöfin hefði ekkert með málið að gera. „Þetta snýst ekki um byssur heldur snýst þetta um raunveruleg geðræn veikindi,“ segir Trump. Hann segir að ekki sé nóg að auka menntun og þekkingu á geðsjúkdómum það séu alltaf einstaklingar sem sleppi í gegnum síuna og fremji voðaverk. Vandinn sé og verði til staðar. Það sé óhjákvæmilegt.

Enn er ekki vitað hvers vegna Chris Harper Mercer, 26 ára, framdi fjöldamorðin en alls voru þrettán skotvopn skráð á hans nafn. 

Ættingjar og vinir fórnarlamba Mercers komu saman fyrir framan verslun Walmart í Roseburg í gærkvöldi, kveiktu á kertum og báðu. Tvö fórnarlambanna störfuðu í verslun Walmart í hlutastarfi með námi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert