Kynt undir ófriðarbáli í Jerúsalem

Það virðist allt vera að fara í bál og brand í Jerúsalem og Vesturbakkanum. Tveir Ísraelar voru drepnir og þrír særðir í tveimur árásum í Jerúsalem um helgina. Árásarmennirnir, báðir ungir Palestínumenn, voru skotnir til bana af lögreglu.

Lögregla hefur bannað Palestínumönnum sem búa í Austur-Jerúsalem að koma inn í gömlu borgina í tvo daga nema þeir búi þar. Forsætisráðherra Ísraels,  Benjamin Netanyahu, boðaði til neyðarfundar í ríkisstjórn landsins í dag vegna ofbeldisins en fyrir helgi voru ísraelsk hjón skotin til bana á Vesturbakkanum.

Mohammad Halabi, 19 ára laganemi frá þorpi skammt frá Ramallah, stakk tvo til bana og særði konu og barn í gömlu Jerúsalem í gærkvöldi en fólkið var að koma frá bænahaldi. Lögregla skaut Halabi til bana.

Í dag stakk palestínskur unglingur ísraelskan ungling á Vesturbakkanum en lögreglan skaut árásarmanninn til bana. Allt eftirlit hefur verið aukið til muna bæði í Jerúsalem sem og á Vesturbakkanum í kjölfar árásanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert