Mannskæð gassprenging í New York

AFP

Einn lést og tíu slösuðust í gassprengingu í Borough Park í Brooklyn hverfinu í New York í gærkvöldi. 

Slökkviliðsmenn voru komnir innan þriggja mínútna eftir að tilkynning barst um sprenginguna á staðinn og tókst að bjarga fólki úr nærliggjandi byggingum, að sögn borgarstjórans í New York, Bill de Blasio. 

Slökkviliðsstjóri New York borgar segir að bráðabirgðarannsókn bendi til þess að sprengingin hafi orðið í eldavél á annarri hæð hússins en vegna flutninga var verið að skipta um eldavél í íbúðinni sem þýðir að gasið er aftengt um tíma.

Húsið, sem er á þremur hæðum, er illa farið og segja sjónarvottar að múrsteinar hafi þeyst út um allt vegna kraftsins frá sprengingunni. Nærliggjandi byggingar skemmdust einnig. 

49 íbúar þurftu að yfirgefa heimili sín vegna sprengingarinnar, alls úr 18 íbúðum í fimm húsum. Eins þurfti að loka fyrir gas og rafmagn í fjórum þessara húsa. 

Samkvæmt frétt CNN lést íbúi á þriðju hæð hússins, Ligia Puello, 54 ára, í sprengingunni en eins er saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert