Varð fyrir árás hreysikattar

Hreysikettir
Hreysikettir Af Wikipedia

Sænski stjórnmálamaðurinn Annika Tännström varð fyrir árás hreysikattar er hún var úti að hlaupa í Staby, fyrir utan Kungälv á föstudag.

Tännström sem situr í sveitarstjórn fyrir Hægri flokkinn Moderna, hleypur oft á þessum slóðum og er hún var að hlaupa fyrir utan bæinn sá hún lítið brúnt höfuð standa upp úr skurði og hélt að þetta væri mús. Hún vildi ekki hræða kvikindið en ákvað að smella af mynd af dýrinu á símann sinn. Hún sá fljótt að þetta var hreysiköttur en í stað þess að forða sér stökk hann á hann og beit hana í fótinn.

Tännström lét sér samt ekki bregða og segir í samtali við Expressen að hún hafi alls ekki verið hrædd. Enda sé ekki hægt að vera hræddur við svona krúttlegt dýr.

Hún segist hafa sagt hreysikettinum að sleppa takinu þar sem hún vildi halda hlaupunum áfram. Hreysikötturinn hlýddi og stökk inn í skóg. „Ég verð að viðurkenna að mér fannst ég vera frekar heimskuleg að standa þarna og spjalla við hreysikött úti í skógi en hvað getur maður gert,?“ segir Tännström.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert